„Við ætlum að byrja að setjast niður með þeim og ræða við þá,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hafa sjálfstæðismenn ákveðið að hefja viðræður við Bjarta framtíð um mögulegt meirihlutasamstarf í bæjarstjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn myndaði meirihluta með Framsóknarflokknum og Y-lista Kópavogsbúa á síðasta kjörtímabili og var búist við að sjálfstæðismenn héldu samstarfinu áfram við framsóknarmenn þar sem þeir náðu samanlagt meirihluta í bæjarstjórn en ekki var boðið aftur fram undir merkjum Y-listans. Spurður út í þetta segir Ármann að niðurstaða bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna hafi einfaldlega verið að ræða við Bjarta framtíð fyrst.
„Þetta var bara niðurstaðan,“ segir hann og bendir á að níu bæjarfulltrúar af ellefu séu nýir. Við þær aðstæður sé ekki óeðlilegt að skoða hlutina upp á nýtt. „En við erum bara að byrja þannig að það er svo sem ekkert meira um þetta að segja.“