Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir á Facebook-síðu sinni að það sé skrýtið að tapa en líða sumpart eins og sigurvegara. Björt framtíð þurrkaðist út af þingi í alþingiskosningunum í gær.
„Björt Framtíð var stofnuð til þess að breyta stjórnmálunum. Breyta vinnubrögðum og málflutningi. Vonandi hefur okkur tekist það og næst þegar erfið mál á við það sem sprengdi ríkisstjórnina kemur upp verður þeim ekki sópað undir teppið því þau eru valdhöfum erfið. Ísland er gott samfélag, en hér ríkir samt sem áður ljót meinsemd sem er kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Það má ekki nálgast þau mál í vörn og með leyndarhyggju. Við þurfum að þora að standa berskjölduð, breyta um taktík og sýna auðmýkt gagnvart fólkinu okkar.
Ef Bjartri framtíð hefur tekist að leggja lóð á vogarskálarnar hvað þetta varðar þá var gengið til góðs. Flokkurinn og tilvist hans á þingi er ekki stærri en verkefnið um gott íslenskt samfélag.
Sumir spyrja mig hvort úrslit kosninganna séu ekki viðbrögð fólks við því að við fórum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. Það má vera, en ég bakka ekki frá því að það var góð ákvörðun. Í mínum huga skiptir mestu máli að ná fram þeim stefnumálum sem fólk kaus okkur út á og það gerðum við í BF,“ segir Björt á Facebook og fer yfir þau mál sem flokkurinn barðist fyrir og náði fram.
„Hvað tekur við? Örugglega ákveðin naflaskoðun hjá okkur í BF. En sjálf ætla ég líka bara að leyfa mér að njóta þess um stund í það minnsta að þakka fyrir það sem ég á. Njóta samveru með krökkunum mínum og besta eiginmanni veraldar. Það er gaman í pólitík, en þrátt fyrir það sem menn segja um kjör og annað, þá fylgja atinu ekki mikil lífsgæði í þeim skilningi að geta sett fjölskylduna og vini í fyrsta sætið. Ég hef saknað þess mikið og ætla núna að gera það.
Ég ætla að leyfa mér að biðja fólk að hafa þetta aðeins í huga þegar það notar stór orð um þingmenn og/eða ráðherra, sama í hvaða flokki þeir eru. Það er alveg ýmsu fórnað fyrir þingmennsku sem fólki leyfist ekki að væla yfir. Reynsla mín er sú að allt það fólk á þingi sem ég vann með var gott fólk, við vorum ósammála, en stjórnmálamenn ráðast ekki annars í þessar stöður,“ segir í færslu Bjartar á Facebook.