Húsnæðisvandinn leysist sjálfkrafa

Reimar Marteinsson, kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Vestur Húnvetninga á Hvammstanga.
Reimar Marteinsson, kaupfélagsstjóri í Kaupfélagi Vestur Húnvetninga á Hvammstanga. mbl.is/Eggert

Reimar Marteinsson, kaupfélagsstjóri á Hvammstanga, segist varla vita hver stærstu kosningamálin í Húnaþingi vestra verði í ár. „Það er einhvernveginn svo lítið í gangi, rólegt yfir þessu. Það er verið að byggja við íþróttahúsið og það verður væntanlega klárað á þessu kjörtímabili. En skólamál kannski, það er vitað að það þarf að byggja við skólann, hann er of lítill,“ segir Reimar.

Grunnskólarnir á Hvammstanga og í Laugarbakka hafa verið sameinaðir undir eitt þak og Reimar segir stækkunina á skólahúsnæðinu á Hvammstanga verða stóra fjárfestingu fyrir sveitarfélagið. „Ég veit að það er farin af stað einhver hugmyndavinna í kringum það, þannig að útfærsla á því og annað verður örugglega stærsta „issjúið“ í kosningum núna.“

Húsnæði hefur vantað á Hvammstanga um nokkur skeið og lítið verið byggt undanfarinn áratug, en sveitarfélagið hefur úthlutað mörgum lóðum til íbúa undanfarna mánuði. Reimar segir húsnæðisskort hafa verið „rosalegt vandamál“ og að það hefði örugglega orðið kosningamál vorsins ef ekki væri fyrir það að íbúar hefðu verið að sækja um lóðir upp á síðkastið.

„Ég held að það komi til með að leysast bara af sjálfu sér. Fasteignaverð er búið að hækka, eiginlega tvöfaldast frá því sem var fyrir tveimur eða þremur árum, sem gerir það miklu fýsilegra að byggja heldur en það var. Það datt engum í hug að fara að byggja 100 fermetra hús á 30 milljónir, þegar þú gast keypt 200 fermetra hús á 18-19 milljónir. Svo ég held að húsnæðismál verði ekki stórt kosningamál.“

Reimar segir skólamálin í sveitarfélaginu vera í góðum farvegi, en þó vanti fólk til starfa á leikskólanum. „Það er verið að auglýsa núna ítrekað eftir leikskólastarfsmönnum, leikskólinn sjálfur er nógu stór og starfið þar frábært, en það er bara spurning hvort þau geti tekið á móti öllum sem vilja koma inn.“

Rætt er við fleiri íbúa á Norðurlandi vestra um þau mál sem á þeim brenna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert