Viðræðum um myndun nýrra meirihluta að loknum kosningum er ýmist lokið eða þær standa enn yfir. Búið er að mynda meirihluta í sex af tólf stærstu sveitarfélögum landsins. Viðræður eru í gangi í fimm af þessum sveitarfélögum og málefnasamningur bíður samþykkis í einu þeirra.
Meirihlutaviðræður Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og vinstri grænna í Reykjavík hafa gengið vel, að sögn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar. „Við erum í málefnavinnunni og ekki komin á þann stað að ræða stóla og hlutverk,“ sagði Þórdís í gær. Hún sagði að skilyrði um að Dagur viki sem borgarstjóri væri í umræðunni annars staðar en í meirihlutaviðræðunum. Stefnt er að því að samþykkja meirihlutasamstarf fyrir fund borgarstjórnar 19. júní.
Í Kópavogi, næst stærsta sveitarfélagi landsins, eru engar formlegar viðræður hafnar. „Að sjálfsögðu bindur stjórn fulltrúaráðsins vonir við það að mál fari að skýrast og það verði boðað til fundar með oddvita einhvers annars flokks. Að sjálfsögðu viljum við að málin í Kópavogi leysist hið allra fyrsta,“ segir Ragnheiður Dagsdóttir, formaður stjórnar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.
Óeining er komin upp meðal bæjarfulltrúa flokksins. Þrír þeirra, Margrét Friðriksdóttir, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal, lýstu því yfir á fundi á sunnudag að þau vildu ekki ganga til samstarfs við BF-Viðreisn. Þetta mun hafa komið oddvitanum og bæjarstjóranum, Ármanni Kr. Ólafssyni, í opna skjöldu enda hafði verið stefnt að áframhaldandi samstarfi með Theódóru Þorsteinsdóttur, sem leiddi listann, héldu flokkarnir meirihluta sínum sem þeir og gerðu. Alla vikuna hefur verið reynt að bera klæði á vopnin en ekki hefur fundist lausn á málinu. Að sögn Ragnheiðar hefur stjórn fulltrúaráðsins fundað í tvígang í vikunni, síðast í gærkvöldi. „Við höfum rætt stöðuna og hver séu skynsamleg næstu skref en höfum ekki tekið ákvörðun um formlega ályktun. Staðan verður tekin aftur í dag og á sunnudaginn. Við vegum og metum hvern klukkutíma.“
Nánar er fjallað um meirihlutamyndanir eftir sveitastjórnarkosningarnar í Morgunblaðinu í dag.