Kosningarnar í Árneshreppi kærðar

Virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum.
Virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

Kæra hefur borist sýslumanninum á Vestfjörðum vegna gildis kjörskrár í hreppsnefndarkosningum í Árneshreppi á Ströndum. Barst hún nú um helgina og hefur Jónas Guðmundsson sýslumaður þegar skipað þriggja manna nefnd lögfræðinga, lögum samkvæmt, sem mun taka afstöðu til kærunnar. Skrifaðir fyrir kærunni eru Elís Svavar Kristinsson og Ólafur Valsson. Telja þeir að skilyrði til að ógilda niðurstöðu kosninganna séu uppfyllt.

Gagnrýna málsmeðferðina og telja upp ýmis meint brot

Árneshreppur hefur verið í umræðunni vegna lögheimilisflutninga í hreppinn í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Deilt er um byggingu Hvalárvirkjunar í hreppnum, sem er sá fámennasti á Íslandi. Þjóðskrá Íslands felldi að lokum úr gildi marga þeirra lögheimilisflutninga sem um ræðir.

Í kærunni er málsmeðferð hreppsnefndar, oddvita hreppsnefndar og Þjóðskrár Íslands gagnrýnd harðlega. Einnig er því haldið fram að hreppsnefnd hafi brotið gegn ákvæðum laga um að taka til meðferðar athugasemdir frá öðrum en Þjóðskrá og ákvæðum laga um leiðréttingar á kjörskrá.

Þá eru talin upp ýmis meint brot á ákvæðum sem varða framlagningu kjörskrárinnar, þ. á m. brot á skyldu til að auglýsa aukafundi hreppsnefndar, brot á skyldu til að auglýsa hvar kjörskrá lægi frammi, brot á skyldu til að leggja hana fram tíu dögum fyrir kjördag og síðustu daga fyrir kjördag og brot á skyldu til að senda tilkynningar til kjörstjórnar.

Í kafla kærunnar um málsmeðferð Þjóðskrár Íslands segir að hún sé „fordæmalaus með öllu í tengslum við kosningar“ og ýmsir meintir vankantar á meðferðinni taldir upp.

Kærendur telja að ekki hafi verið rétt staðið að framkvæmd kosninganna í skilningi laga um kosningar til sveitarstjórna og að gallar á framkvæmdinni séu svo alvarlegir að þeir hljóti í eðli sínu alltaf að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga. Einnig telja þeir að fullnægt sé skilyrðum laga um að ætla megi að úrslit hefðu orðið önnur, hefði sú málsmeðferð ekki verið í andstöðu við sett lög.

Kærendur telja að skilyrði til ógildingar kosninganna séu uppfyllt. Til stuðnings þeirri ályktun er m.a. vísað til ákvörðunar Hæstaréttar frá 2011 um lögmæti kosninga til stjórnlagaráðs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka