Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 6. sæti á lista flokksins í komandi prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík.
Frá þessu greinir Egill á facebooksíðu sinni. Egill hefur verið opinskár um baráttu sína við krabbamein og sagði frá henni á einlægan hátt í Dagmálum í janúar. Egill segir reynsluna hafa styrkt trú sína á stefnuna um hjálp til sjálfshjálpar.
„Sú barátta stendur enn yfir en ég er á leið í meðferð sem gefur góðar líkur á lækningu. Stefnan er því sett á að koma margfalt sterkari til leiks á haustmánuðum. Þótt auðveldara hefði verið að kasta inn hvíta handklæðinu og hætta afskiptum af pólitík þá hefur þessi lífsreynsla styrkt trú mína á stefnuna um hjálp til sjálfshjálpar.,“ skrifar Egill þar en Egill hefur í tvígang þurft að glíma við krabbamein, í sumar og aftur í janúar síðastliðinn. Hann stefnir á að koma til baka úr veikindaleyfi á haustmánuðum.
Egill Þór Jónsson er Breiðhyltingur og hefur búið þar alla sína tíð. Hann gekk í Hólabrekkuskóla, Fjölbrautaskólann í Breiðholti áður en hann hóf nám í félagsfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist þar árið 2015. Á háskólaárunum var Egill Þór meðal annars formaður Vöku félags lýðræðissinnaðra stúdenta auk annarra félagsstarfa.
Fljótlega eftir útskrift hóf Egill Þór störf hjá Reykjavíkurborg við velferðartengd störf og starfaði lengi við málefni fatlaðs fólks áður en hann tók 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.