Vilja lækka útsvarið aftur á Seltjarnarnesi

Mikil ólga varð í bæjarstjórn Seltjarnarness í lok árs í fyrra þegar einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins klauf sig frá meirihlutanum og studdi tillögu minnihlutans um hækkun útsvarsprósentunnar i bæjarfélaginu úr 13,7% í 14,09%.

Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar, sem sækist eftir því að leiða flokkinn í kosningunum í vor lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun og segist ekki aðeins vilja lækka útsvarið aftur í 13,7% heldur færa það niður í 13,5%.

Magnús keppir um forystusætið við Svönu Helen Björnsdóttur, Þór Sigurgeirsson og Ragnhildi Jónsdóttur. Þau telja öll æskilegt að lækka útsvarið en Þór segir þó mikilvægt að staldra við vegna hallareksturs, kórónuveirufaraldursins og mikilla skuldbindinga bæjarfélagsins. Vera kunni skynsamlegt að lækka útsvarið ekki strax. Hann segist heldur ekki skynja það á bæjarbúum að útsvarslækkun brenni á þeim.

Nýti upplýsingatæknina

Ragnhildur segir að hún hafi ekki stutt tillögu um hækkun útsvarsprósentunnar í árslok í fyrra. Þetta hafi ekki verið réttur tímapunktur til að ráðast í skattahækkanir. Hún bendir sömuleiðis á að sveitarfélögin þurfi að sækja á ríkisvaldið um að meira fjármagn fylgi þeim málaflokkum sem fluttir hafi verið frá ríki til sveitarfélaga. Hún telur einnig að bærinn hafi tækifæri til þess að hagræða í rekstri sínum, m.a. með betri nýtingu upplýsingatækninnar.

Áhyggjur af hækkandi fasteignagjöldum

Svana Helen er fylgjandi lækkun útsvars en segist vilja sjá ársreikning bæjarins fyrir síðasta ár og fá fullvissu fyrir því að rekstraráætlanir hafi gengið eftir. Þá segist hún hafa áhyggjur af fasteignagjöldum. Margir íbúar Seltjarnarness séu að komast á efri ár þar sem tekjur minnka en á sama tíma hækki fasteignaverð gríðarlega sem valdi auknum útgjöldum sama fólks.

Útsvarið á Seltjarnarnesi hefur verið hátt í krónum talið þó að útsvarsprósentan hafi lengi vel verið lág í samanburði við önnur sveitarfélög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka