„Framsóknarlegt að vilja bara borgarstjórastólinn“

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir lítið koma á óvart …
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir lítið koma á óvart í sáttmála meirihlutans í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég get ekki séð að þetta sé sá breytingasáttmáli sem Framsókn boðaði enda vissi Framsókn svo sem ekkert hvaða breytingum hún vildi ná fram, fyrir utan að það sé annar borgarstjóri í embætti. Það er mjög framsóknarlegt að vilja bara borgarstjórastólinn – óháð öllu,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Meiri­hluta­sátt­máli Fram­sókn­ar, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Viðreisn­ar í Reykja­vík var kynnt­ur á sam­eig­in­leg­um blaðamanna­fundi í Elliðaár­daln­um í gær.

Senda náttúrunni kaldar kveðjur

Líf segir ekkert í nýjum sáttmála koma sér sérstaklega á óvart en ánægjulegt sé að sum stefnumál Vinstri grænna séu í sáttmálanum, til dæmis Vísindaveröldin sem þau vildu ráðast í á þessu kjörtímabili. Hún gagnrýnir jafnréttismál og umhverfismál í sáttmálanum.

„Það er ekkert talað um kvenfrelsi og réttlát umskipti í þessum sáttmála. Þessu er einhvern veginn hnoðað saman og svo sjáum við bara hvort þetta nær að hefast,“ segir Líf.

„Mér þótti súrt að sjá að náttúruvernd og umhverfismál í víðu samhengi sé ekki gert hærra undir höfði. Mér finnst skorta miklu meiri áherslu á ný og „konkret“ umhverfismál og náttúruvernd. Mér finnst með því þau senda náttúrunni kaldar kveðjur.“

Hefðu getað ráðið konu sem borgarstjóra

Líf segist ekki hafa sérstaka skoðun á skiptingu borgarstjórastólsins á miðju kjörtímabili en gagnrýnir ákvörðunina á öðrum forsendum.

„Það skiptir auðvitað máli hver er borgarstjóri. Ég hefði viljað sjá konu í þessum stóli. Ég held að þau hefðu jafnvel getað ráðið borgarstjóra, fyrst þau gátu ekki komið sér saman um einn borgarstjóra.“

„Við ákváðum eftir úrslit kosninganna að það væri lítill flötur á því að taka þátt í nokkru samstarfi. Auðvitað hlaupum við til og björgum málum ef allt fer úrskeiðis. Við erum alltaf tilbúin til samstarfs um góð mál og við eigum líka eftir að hafa mikil áhrif í minnihluta, rétt eins og við gerðum í meirihluta á síðasta kjörtímabili,“ segir Líf Magnedóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert