Heppin sex ára stelpa keypti hundraðþúsundasta eintakið

Birgitta Haukdal og Ljónsi með vinningshafann Maríu Grétarsdóttur á milli …
Birgitta Haukdal og Ljónsi með vinningshafann Maríu Grétarsdóttur á milli sín í verslun Forlagsins á Fiskislóð 39. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnabækurnar um Láru og Ljónsa eftir Birgittu Haukdal hafa notið ómældra vinsælda á meðal unga fólksins síðustu ár. Bækurnar hafa vakið mikla athygli og átt dyggan aðdáendahóp frá því að fyrsta bókin kom út fyrir átta árum síðan.

Óhætt er að segja að í ár hafi vinsældir bókanna náð nýjum hæðum og nú hafa þær selst í yfir 100.000 eintökum.

Hreppti gullmiðann

Af þessu tilefni blés Forlagið til skemmtilegs leiks með því að koma fyrir gullmiða í hundraðþúsundasta eintakinu. Gullmiðinn var ávísun á veglegan vinning og var það hin sex ára stálheppna stelpa, María Grétarsdóttir, sem keypti hundraðþúsundasta eintakið af bókunum um Láru og Ljónsa í bókabúð Forlagsins. María hlaut allar Láru og Ljónsa bækurnar, sérmerkta skólatösku, bakpoka, buff og bangsa ásamt miða á Láru og Ljónsa í Þjóðleikhúsinu fyrir alla fjölskylduna. Birgitta Haukdal og Ljónsi mættu á svæðið og afhentu Maríu vinninginn sem átti alls ekki von á þessu.

Gullmiðinn var falinn í hundraðþúsundasta Láru og Ljónsa eintakinu.
Gullmiðinn var falinn í hundraðþúsundasta Láru og Ljónsa eintakinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er heppnasta stelpan á Íslandi,“ segir María sem er í skýjunum með vinninginn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur María lengi verið aðdáandi Láru og Ljónsa og lesið nánast allar bækurnar sem eru orðnar 18 talsins, auk þriggja tónlistarbóka og tveggja bendibóka ætluðum þeim allra yngstu.

„Uppáhaldsbækurnar mínar eru Lára fer í flugvél og Lára fer í sund,“ segir María sem stundum sér sjálfa sig í Láru.

„Lára og Ljónsi eru alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt og svo finnst mér Lára líka svolítið lík mér.“

Það skein bros úr hverju andliti þegar Birgitta Haukdal og …
Það skein bros úr hverju andliti þegar Birgitta Haukdal og Ljónsi komu hinni stálheppnu Maríu að óvörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreykin af sjálfri sér

Lárubækurnar koma út hjá Vöku-Helgafelli, innan vébanda Forlagsins. Forlagið og ritstjóri Birgittu lofa samstarfið við hana og segja það með skemmtilegri áskorunum. Það sé einna helst vegna þess að Birgitta búi yfir óþrjótandi sköpunarkrafti og sé bæði faglegur og klár höfundur sem geri miklar kröfur um gæði. 

„Ég á eiginlega ekki til rétt lýsingarorð, þetta er svo ótrúlegt. Mér finnst þetta mjög óraunverulegt en er ofsalega þakklát og bara svolítið stolt af sjálfri mér,“ segir Birgitta Haukdal um eigin uppskeru og þá staðreynd að nú hafi yfir 100.000 eintök af bókum hennar verið seld.

María er alsæl með vinninginn og segist vera heppnasta stelpa …
María er alsæl með vinninginn og segist vera heppnasta stelpa á öllu Íslandi en hún hefur lengi verið aðdáandi ævintýranna um Láru og Ljónsa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðdáendahópur Láru og Ljónsa hefur farið ört stækkandi undanfarin ár og við vinsældirnar styðja niðurstöður nýjasta bóksölulistans frá Félagi íslenskra bókaútgefanda. Þar trónir Birgitta á lista með þrjár bækur yfir topp 20 söluhæstu bækur landsins í öllum flokkum.

Í sögubókunum takast Lára, bangsinn Ljónsi og Atli vinur hennar á við ýmis mál úr hversdagsleikanum og lenda í aðstæðum sem flest börn á Íslandi þekkja.

„Ég hef alla tíð skrifað sögurnar með mín börn í huga og skrifað um það sem þau elska. Ætli það séu ekki bara fleiri börn þarna úti sem eru ekki svo ólík mínum,“ segir hún.  „Ég reyni að setja mig í spor barnanna sem hlusta og reyni svo bara að vanda mig eins vel og ég get að vera einlæg í mínum skrifum.“

Uppáhaldsbækurnar hennar Maríu eru Lára fer í flugvél og Lára …
Uppáhaldsbækurnar hennar Maríu eru Lára fer í flugvél og Lára fer í sund. Hún segist stundum sjá sjálfa sig í Láru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lára og Ljónsi á leiksvið þriðja árið í röð

Árið 2020 var leiksýningin Jólasaga með Láru og Ljónsa sett upp í Þjóðleikhúsinu. Verkið og tónlistin er eftir Birgittu og fékk hún Guðjón Davíð eða Góa til liðs við sig til að gera leikgerðina og leikstýra sýningunni. Sýningin hefur notið þvílíkra vinsælda og þegar ljóst var að hún seldist upp löngu fyrir jól enn ein jólin var ákveðið að færa hana upp á stóra sviðið þar sem hún nýtur sín vel. Enn er hægt að nálgast miða á sýninguna hjá Þjóðleikhúsinu fyrir jól og milli jóla og nýárs.

„Þessi sýning er ofsalega ljúf og falleg og það er yndislegt að fylgjast með börnunum lifa sig inní hana,“ segir hún með hlýju.

Að sögn Birgittu eru áfram bjartir tímar framundan hjá Láru og Ljónsa og ný ævintýri í bígerð sem ekki er tímabært að upplýsa um að svo stöddu. 

„Hausinn á mér er alltaf á fullu að hugsa nýjar hugmyndir og vinkla á mínum verkum. Til viðbótar við nýjar bækur er eitt stórt verk í vinnslu sem ég vona að líti dagsins ljós á nýju ári. Verð að fá að segja ykkur frá því síðar,“ segir Birgitta að lokum. 

Birgitta Haukdal er að vonum ánægð með eigin árangur nú …
Birgitta Haukdal er að vonum ánægð með eigin árangur nú þegar yfir 100.000 eintök hafa verið seld af bókunum um Láru og Ljónsa. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka