Margrét Lára Viðarsdóttir og Eiður Smári Guðjohnsen voru á einu máli þegar beint rautt spjald sem Myles Lewis-Skelly fékk í liði Arsenal í 1:0-sigri á Wolves var rætt í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi.
„Þetta er aldrei rautt spjald. Ekki fyrir mitt leyti. Mér finnst það sem Skelly er að gera, hann á að gera það. Það sem stjórinn vill að hann geri er að stoppa hraða sókn hjá Úlfunum þar sem Arsenal-liðið er fáliðað til baka.
Mér finnst þetta ekki hættulegt. Hann setur engan kraft, fer ekki af offorsi og það eru engin læti í þessu. Maðurinn bara dettur og gult spjald, áfram gakk,“ sagði Margrét Lára um atvikið.
„Þetta er sennilega með því fáránlegasta rauða spjaldi sem ég hef séð síðan ég byrjaði að horfa á fótboltaleiki. Það er bara verið að stoppa skyndisókn.
Hann er djúpt á eigin vallarhelmingi. Þú ert með tvo varnarmenn sem eru að kovera hlaupið. Þetta er bara gult spjald og búið,“ sagði Eiður Smári.
Umræðu þeirra ásamt þáttastjórnandanum Herði Magnússyni um rauða spjald Lewis-Skelly og rauða spjaldið sem Úlfurinn Joao Gomes fékk má sjá í spilaranum hér að ofan.