Í Vellinum á Símanum Sport ræddu þau Eiður Smári Guðjohnsen, Margrét Lára Viðarsdóttir og þáttastjórnandinn Hörður Magnússon um dræmt gengi Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu að undanförnu.
Chelsea tapaði 3:1 fyrir Manchester City um helgina.
„Þeir finna fyrir því að þeir eru ekki orðnir þetta þroskaða lið sem getur hugsanlega sett pressu á efstu tvö liðin, Liverpool og Arsenal,“ sagði Eiður Smári.
Hann minntist þá á að þegar gengi Chelsea var frábært fyrr á tímabilinu hafi Enzo Maresca knattspyrnustjóri verið duglegur að segja liðið ekki reiðubúið að berjast um Englandsmeistaratitilinn.
„Ég held að það hafi ekkert hjálpað þegar Maresca fór að tala þetta svona mikið niður. Hvort að hann komi með þau skilaboð til leikmannahópsins: „Ef þjálfarinn trúir því ekki, hvernig eigum við þá að gera það?““
Umræðuna um Chelsea má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.