mbl | sjónvarp

Sér ástæðu til að endurskoða útlendingalöggjöfina

INNLENT  | 2. febrúar | 15:53 
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir rétt að skoða hvort færa megi löggjöf landsins er varðar málefni flóttamanna til samræmis við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir rétt að skoða hvort færa megi löggjöf landsins er varðar málefni flóttamanna til samræmis við það sem gerist á öðrum Norðurlöndum.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hann í Spursmálum. Þar ræðir hann þær miklu áskoranir sem fylgja stríðum straumi fólks til landsins sem óskar eftir alþjóðlegri vernd. Hingað til lands koma hlutfallslega miklu fleiri í þeim erindagjörðum en til hinna ríkja Norðurlanda.

 

Í fyrra fengum við jafn margar umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi frá Palestínu og öll hin Norðurlöndin til samans. Það segir manni að það er einhver mjög mikill munur á þessum kerfum. Eitt af því sem hefur haft mikil áhrif á umræðuna hérna heima eru svokallaðar fjölskyldusameiningar og það hefur verið hávær krafa, og var Austurvöllur meðal annars lagður undir mótmæli svo vikum skipti í tengslum við þau mál. Danir hafa t.d. gert mjög ríkar kröfur á þá einstaklinga sem óska eftir þessum fjölskyldusameiningum, þar hafa t.d. verið gerðar kröfur að þeir sem óska eftir því að kalla sitt fólk til sín í nýtt heimaland hafi lært dönsku í að minnsta kosti tvö ár. Þetta eru mjög ríkar kröfur, þetta rímar dálítið við þínar áhyggjur varðandi tungumálaleysið og annað í þeim dúr. Telur þú að við eigum að stíga slík skref, eða eru Danirnir, eins og sumir vilja halda þegar þessi mál ber á góma séu komnir í einhvern rasistapakka með þessum kröfum á þetta fólk?

Ástæða til samanburðar

„Ég ætla ekki að vera með einhverjar stórar yfirlýsingar um hin Norðurlöndin hvað slíkt varðar. Bara eins og ég sagði þá finnst mér ástæða til að bera saman hvernig lög og reglur eru hérlendis við hin Norðurlöndin. Og mér finnst hins vegar mikilvægt að fólk hafi tækifæri til þess að sameinast fjölskyldum sínum,“ svarar Guðmundur Ingi.

mbl.is

En það er búið að bera þetta saman og þú þekkir það vel og betur en ég að samanburðurinn hefur farið fram. Spurningin er: er ástæða fyrir okkur til þess að færa okkur í átt að því sem hin Norðurlöndin hafa gert, m.a. Danir undir forystu sósíal-demókrata á síðustu misserum eða ætlum við að halda okkur föst við okkar keip í þessum efnum?

„Ég sé alveg ástæðu til að við skoðum og berum saman þessa löggjöf og hvað það væri sem væri æskilegt, eðlilegt, mikilvægt að færa til sams vegar og á hinum Norðurlöndunum,“ segir Guðmundur Ingi.

Eitt að skoða annað að hafa skoðun

En hefur þú skoðun á því hvað það er núna því ég veit að þú ert inni í þessum málum. Þú segir við skulum skoða það, svo setja menn hluti í nefnd og svo klárast kjörtímabilið. Ég er að spyrja hvort menn hafi einhverjar konkret hugmyndir í þessum efnum til þess að geta brugðist við þessu ástandi.

„Ég er nú bara að gefa dómsmálaráðherranum færi á að kannski hafa forystu í sínum málaflokki en ég get alveg sagt það að ég er alveg reiðubúinn að skoða þær tillögur sem fram koma.“

Viðtalið við Guðmund Inga má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

Loading