Ellefta Marslendingin í aðsigi

Perseverance byggir á Curiosity könnuðinum sem lenti á Mars árið …
Perseverance byggir á Curiosity könnuðinum sem lenti á Mars árið 2012. Hann mun geta ferðast á bilinu 5-20 kílómetra til að safna jarðsýnum. Ein af nýjungunum er míkrafónn sem mun taka upp hljóð í fyrsta skipti á rauðu plánetunni og búast má við myndum í miklum gæðum úr þeim 19 myndavélum sem eru um borð. Könnuðurinn er um 3 metrar að lengd 2,7 metrar að breidd og 2,2 metrar á hæð. Þyngdin er töluverð eða 1.025 kíló sem er þyngsti farmur sem farið hefur verið með til Mars. Ljósmynd/NASA

Þann átjánda febrúar er gert ráð fyrir að könnuðurinn Perseverance lendi á plánetunni Mars. Verkefnið nefnist Mars 2020 og er á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Með í för verður þyrludróninn Inginuity sem, ef allt gengur að óskum, verður fyrsta loftfarið sem mannfólk kemur á loft á annarri plánetu. Eitt helsta markmið leiðangursins er að leita ummerkja sem staðfesta örverurlíf á rauðu plánetunni en ekki síður að plægja akurinn fyrir mannaðar ferðir þangað í framtíðinni.  

Allt þarf að ganga upp til að Perseverance og Ingenuity …
Allt þarf að ganga upp til að Perseverance og Ingenuity lendi á Mars í mánuðinum. Myndin sýnir geimfarið sem er nú á hraðferð um sólkerfið. AFP

Perseverance mun bora í bergið á Mars og safna jarðsýnum sem verður pakkað í loftþéttar umbúðir en markmiðið er þær að verði fluttar til jarðar á næstu árum. En könnuðurinn er einnig búinn öflugri greiningartækjum en áður hafa verið í sambærilegum leiðöngrum sem gefa nákvæmari upplýsingar um sýnin sem safnast. Þá verðar gerðar tilraunir með að vinna súrefni úr lofthjúpi Mars og leitað að auðlindum sem gætu gagnast fólki þegar þangað er komið. Hugmyndin er að í framtíðinni verði mannaðar stöðvar á Mars og því verða veðurskilyrði og aðrir umhverfisþættir greindir með nákvæmari hætti en hingað til hefur verið gert til að undirbúa vistina á plánetunni.

Í myndskeiðinu að neðan er Mars 2020-verkefnið kynnt og þar á meðal lendingarstaðurinn Jezero-gígur sem var eitt sinn fullur af vatni og varð fyrir valinu þar sem líklegt þykir að þar gætu fundist ummmerki um örverur, hafi þær á annað borð þrifist á Mars.

Leiðangurinn lagði af stað þrítugasta júlí á síðasta ári og ferðast nú á tæplega 79.000 km/klst. hraða í átt að Mars en ferðalagið er í heildina um 480 milljónir kílómetra. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu í sýndarveruleika hér en NASA heldur úti umfangsmiklum upplýsingavef um leiðangurinn.

Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá hvernig NASA-teymið áætlar að lenda Perseverance á yfirborði Mars. Langsamlega viðkvæmasti hluti leiðangursins og gera má ráð fyrir að teymið haldi í sér andanum þegar kemur að lendingunni því mikið er í húfi. Fyrir utan öll gögnin sem eru ómetanleg í sjálfu sér og eru í húfi, er kostnaður verkefnisins áætlaður í kringum 2,7 milljarða bandaríkjadollara.   

Sovétmenn fyrstir á svæðið

Þó er full ástæða til bjartsýni í ljósi þess að til þessa hefur mannfólki tíu sinnum tekist að lenda á plánetunni. Hið sovéska Mars 3 var fyrst til þess árið 1971 og Viking 1 hið fyrsta á vegum NASA árið 1975. Bandaríkjamönnum hefur tekist að lenda átta sinnum alls en Sovétmönnum tvisvar. Auk þessara þjóða hefur evrópsku og indversku geimvísindastofnununum tekist að koma geimförum á sporbaug um Mars. 

Síðast lenti InSight Mars Lander þar í maí 2018 og er sá leiðangur enn þá að störfum. Þrátt fyrir að heilt yfir megi segja að árangur Marsleiðangra batnað með tímanum eru þó nokkur dæmi um að lendingar hafi ekki tekist á undanförnum árum. Evrópsk-rússneski leiðangurinn Schiaparelli EDM hrapaði í lendingu árið 2016 og árið 2003 týndist hinn breski Beagle í lendingu sem þó er talið að hafi heppnast. Síðar kom í ljós að sólarsellur könnuðarins breiddu ekki úr sér sem skyldi og því tapaðist sambandið við Jörðu. 

Ekki er þó allt klippt og skorið í þessum efnum því áðurnefndur Mars 3 var einungis virkur í tvær mínútur áður en samabandið rofnaði að því er talið er vegna illvígs sandstorms á svæðinu.

Fyrsta ljósmyndin sem tekin var á Mars. Árið er 1976 …
Fyrsta ljósmyndin sem tekin var á Mars. Árið er 1976 og ljósmyndarinn er geimfarið Viking 1. Ljósmynd/NASA

Samkvæmt áætlunum NASA-teymisins sem stendur á bak við Mars 2020-leiðangurinn mun Perseverance vera að störfum í eitt Mars-ár en það eru um 687 sólarhringar hér á jörðu. Þegar kom að því að velja lendingarstað varð Jezero-gígur fyrir valinu en hann er 45 kílómetra breiður og rétt norður af miðbaug. Fyrir 3-4 milljörðum ára rann á í gegnum gíginn sem gerði hann að nokkuð stóru stöðuvatni sem mögulega var vin í eyðimörkinni á Mars. 

Tölvugerð mynd NASA af því hvernig Jezero-gígur gæti hafa litið …
Tölvugerð mynd NASA af því hvernig Jezero-gígur gæti hafa litið út þegar áin rann um hann en greinileg merki eru um inn- og útstreymi í gígnum í dag. NASA

Gígarnir gefa góð fyrirheit

Vonast er til að upplýsingarnar sem fást um jarðfræði og veðurskilyrði á plánetunni eigi eftir að skýra betur út af hverju Jörðin og Mars eru svo ólíkar í dag þrátt fyrir að byggja í grunninn á sömu efnum. Áður hefði ekki verið hægt að lenda á stað á borð við Jezero-gíg þar sem yfirborðið hefði verið of erfitt yfirferðar. Perseverance er búið tækni sem les í aðstæður í umhverfinu og mun miða út frá því hvar endanlegur lendingarstaður verður en ekki síður er sjálfkeyri-tækni nú mun þróaðri en hún var árið 2012.  

Gígar þykja vænlegir áfangastaðir til rannsókna á mögulegu örverulífi í fyrndinni. Sér í lagi þegar komið hefur saman mikill hiti og vatn sem getur verið vísbending um örverulíf. Þegar vísindamenn greindu upplýsingar sem bárust frá könnuðinum Spirit töldu þeir sig einmitt sjá vísbendingar um slíkt í Gusev-gígnum á Mars. Skilyrði sem þessi hafa að einhverju leyti myndast í eldgosum hér á landi og hafa verið rannsökuð af jarðvísindamanninum Christopher Hamilton sem hefur einmitt fengið styrk frá NASA í þróunarstarf á drónatækni sem ætlunin er að nýta á Mars. En um það hefur verið fjallað hér á mbl.is.

Mikil eftirvænting er fyrir fyrsta flugi mannkyns á annarri plánetu …
Mikil eftirvænting er fyrir fyrsta flugi mannkyns á annarri plánetu sem verður í næsta mánuði gangi allt að óskum. Áætlað er að þyrludróninn taki fimm sinnum á loft á fyrstu þrjátíu dögum Mars 2020. Helsta áskorunin er lágur loftþrýstingur á Mars sem er einungis um 1% þess sem er á jörðu. Mynd/NASA

Hér er að lokum að finna lagalista með tónlist sem er innblásin af rauðu plánetunni.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka