NASA-könnuðurinn Perserverance lenti á Mars klukkan 20.55 á íslenskum tíma í kvöld. Þar með er hafin metnaðarfyllsta aðgerð NASA síðan á áttunda áratug síðustu aldar, sem lýtur að því að leita að lífi á mars.
Perserverance er fimmti könnuðurinn á hjólum sem NASA kemur á Mars. Á heildina litið er þetta ellefta Marslending manna frá upphafi.
Eitt helsta markmið leiðangursins er að leita ummerkja sem staðfesta örverulíf á rauðu plánetunni en ekki síður að plægja akurinn fyrir mannaðar ferðir þangað í framtíðinni.
Sagt var frá því á mbl.is fyrr í mánuðinum að Perseverance mun bora í bergið á Mars og safna jarðsýnum sem verður pakkað í loftþéttar umbúðir en markmiðið er þær að verði fluttar til jarðar á næstu árum.
En könnuðurinn er einnig búinn öflugri greiningartækjum en áður hafa verið í sambærilegum leiðöngrum sem gefa nákvæmari upplýsingar um sýnin sem safnast. Þá verðar gerðar tilraunir með að vinna súrefni úr lofthjúpi Mars og leitað að auðlindum sem gætu gagnast fólki þegar þangað er komið.
Hugmyndin er að í framtíðinni verði mannaðar stöðvar á Mars og því verða veðurskilyrði og aðrir umhverfisþættir greindir með nákvæmari hætti en hingað til hefur verið gert til að undirbúa vistina á plánetunni.
Hér má fylgjast með beinni útsendingu og umfjöllun um málið frá NASA: