Plastið getur borið með sér hættulegar örverur

Tækifærissýklar fundust í þreföldu magni á plastsýnum.
Tækifærissýklar fundust í þreföldu magni á plastsýnum. AFP

Plastrusl í ám getur átt þátt í dreifingu hættulegra sýkla samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Rannsóknin var birt í gær og sýndu niðurstöður fram á að plast, trjágreinar og árvatnið skapi kjörnar aðstæður fyrir örverur, sem auki hættu á bakteríum og veirum sem valdi sjúkdómum og sýklalyfjaónæmi hjá fólki.

„Þetta gæti haft óbein en veruleg áhrif á heilsu fólks,“ sagði Vinko Zadjelovic, einn rannsakendanna við Antogafasta-háskólann í Chíle, í samtali við fréttastofu AFP.  

Salmonella, kólígerlar og streptókokkar

Rannsakendur lögðu sýni úr mismunandi efnum í viku í senn fyrir neðan skólphreinsistöð við ána Sowe í Warwickskíri.

Leiddu niðurstöður í ljós marktækan mun á örverusamfélögum eftir því hvaða efni hafði verið lagt í kaf, en plastið var þakið örverum eftir örfáar mínútur í vatninu.  

Vatnssýnin sem vísindamennirnir söfnuðu í febrúar 2020 innihéldu ýmist bakteríur úr mönnum eins og salmonellu, kólígerla og streptókokka, en plast- og viðarsýnin löðuðu einnig að sér tækifærissýkla eins og bakteríurnar pseudomonas aeruginosa og aeromonas sem fundust í allt að þreföldu magni á plastsýnum.

Tækifærissýklar valda sýkingum sem hrjá að mestu einstaklinga með skerta ónæmisstarfsemi. 

Zadjelovic sagði niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á brýna nauðsyn strangara eftirlits með skólphreinsistöðvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert