Höskuldur Birkir Erlingsson, aðalvarðstjóri i lögreglunni á Norðurlandi vestra, með aðsetur á Blönduósi er veiðimaður vikunnar. Hann segist veiða mest í ánum í kringum heimaslóðirnar. Höskuldur er einnig leiðsögumaður veiðimanna og hefur verið það í rúman áratug í Blöndu, Víðidalsá og Laxá á Ásum svo einhverjar séu nefndar.
„Ég er alltaf með fast holl í Víðidalsá. Það er eitthvað sem ég vil bara alls ekki sleppa. Víðidalsáin er alveg æðisleg. Mér finnst hún svo fjölbreytt. Hún býður upp á mikla hraða strengi og hægar stórar breiður og svo er Fitjáin lítil og nett. Svo er það þannig að þegar maður fer í Víðidalsá þá er alltaf spennan að ná í þennan stóra. Ég hef á hverju ári náð stórum fiski þar, en hef ekki náð að landa þessum risastóra. Ég á sjö laxa sem mældust 98 sentímetrar.“ Hann hlær.
Lax í Víðidalsá getur hæglega vigtað tíu kíló þó hann sé ekki nema 98 sentímetrar. Höskuldur er sammála því en segist ekki vera að vigta þessa fiska. „Nú er maður bara að mæla þá. Og ég er ekkert að spá í hvort hann er tuttugu pund eða ekki. Ég er að leita að þriggja stafa tölunni.“
„Ég fer líka alltaf í Laxá á Ásum ef ég á þess kost. Þar er ég í leiðsögn alltaf af og til og mér finnst áin alger gullmoli. Hún er þekkt fyrir að laxinn í henni er frekar smá. En mín kenning er að laxinn í henni sé ekki smálax. Stofninn í henni er sérstakur. En í fyrra sáum við mikið af mjög stórum laxi í henni og ég missti fisk sem var vel yfir metra í Langhyl.“
Höskuldur heldur því fram að laxinn í Ásunum sé sá kraftmesti og grjótharðasti sem hann hefur komist í tæri við. „Það skilur þetta enginn fyrr en hann prófar það. Ég hef oft lent í því að setja í bara 65 sentímetra fisk og þurfa að elta hann langt niður úr hylnum þar sem hann tók. Ég er svo sem að veiða með nettar græjur en það breytir því ekki að hann er miklu harðari en í öðrum ám.“
Höskuldur heldur sérstaklega mikið upp á svæði tvö í Blöndu. Hann segist alltaf reyna að komast þangað tvisvar til þrisvar á hverju sumri. „Ég skil vel að margir veiðimenn bara hristi hausinn þegar þeir koma á þetta víðfeðma svæði í fyrsta skipti. En þegar maður nær tengslum við hana og veit hvar fiskurinn stoppar og heldur sig, þá er ofsalega gaman að veiða þetta svæði.“
Hann notar margvíslegar veiðiaðferðir í Blöndu. Stundum er hann með tvíhendu og sökkenda með túbu en hann fer líka í einhenduna og flotlínuna með smáar flugur. Og það var einmitt með þessar léttu græjur sem hann setti í 98 sentímetra fisk. „Þetta var stórfiskaárið 2016. Ég var í opnunarhollinu og ég var að veiða lítinn leynistað sem ég á. Þetta var splunkunýr hængur og viðureignin stóð í einn og hálfan tíma. Fiskurinn tók örsmáa Frances.“
Þegar veiðimaður vikunnar er beðinn um að lýsa draumaaðstæðum við veiðiskap, þarf hann ekki að hugsa sig lengi um. Hann vill frekar litla á, nettar græjur, pínulitlar flugur og hratt stripp. „Ég nota Hauginn mjög mikið. Hún er uppáhaldsflugan, sérstaklega fyrri hluta sumars. Það er mögnuð fluga og ég fer alveg niður í sextán, jafnvel átján.“ Hann er einnig hrifinn af flugunum hans Nils Folmer. Þar má nefna Autum hooker og Ernu. „Þær eru sterkar á haustin. Mín veiði er aðallega á haustin. Það skýrist af tvennu. Verðið er lægra og svo er ég að leita að stóru hængunum og þeir eru tilkippilegir á haustin þegar fiskurinn er að nálgast hrygningu.
„Sumarið leggst alltaf vel í mig. Maður er alltaf bjartsýnn og vongóður í upphafi sumars.“ Höskuldur verður þó að viðurkenna að fyrstu teikn sem eru á lofti varpa örlitlum skugga á bjartsýnina. „Það er enginn rífandi gangur í veiði á tveggja ára fiski. Það er ekkert bingó í gangi þar. Ég er samt spenntur fyrir því að sjá hvað kemur mikið af smálaxi. Ég trúi því að þetta verði stóra smálaxaárið. 2016 þá upplifðum við mikið magn af tveggja ára laxi. Í fyrra var þetta um það bil helmingi minna af tveggja ára laxi og lítill sem enginn smálax. Núna er töluvert minna af tveggja ára laxi en ég trúi að það komi mjög mikið af smálaxi.“
Þess á milli sem Höskuldur er að veiða eða við leiðsögn í laxveiðiám í Húnavatnssýslum er hann að fylgjast með umferðalagabrotum og leggur stund á almenn löggæslustörf.
Hefur þú lent í því að taka veiðimann sem var að koma í leiðsögn til þín, fyrir of hraðan akstur?
Höskuldur hlær og segist ekki hafa lent í því. „En ég hef lent í því að taka mann fyrir of hraðan akstur um hádegi og fara svo sjálfur að veiða og fyrsti maður sem ég mætti í veiðihúsinu var sá brotlegi. Það var pínu vandræðalegt þegar við horfðumst í augu þegar ég kom á planið. Svo fór vel á með okkur og við skáluðum í góðu rauðvíni um kvöldið.“
Höskuldur heldur áfram. „Þegar maður er á radarnum þá er maður líka á veiðum. Það er annars konar veiði. Það er að ná þeim sem eru að brjóta lögin. Þegar maður er í þessu starfi og er við þetta þá þarf maður að hafa pínu veiðigen í sér.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |