Stefnir í meðalsumar í laxinum

Þorgeir Haraldsson með tveggja ára lax úr Vatnsdalsá. Áin er …
Þorgeir Haraldsson með tveggja ára lax úr Vatnsdalsá. Áin er komin yfir hundrað fiska. Ljósmynd/Aðsend

Ríflega þrjátíu laxar eru komnir á land á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal. Opnunarhollið var með tólf fiska og annað hollið landaði 21 fiski. Af þessum þrjátíu og þremur fiskum eru þrír 20 pundarar. Í opnunarhollinu veiddist fiskur sem mældist 103 sentímetrar.

Árni Pétur Hilmarsson, staðarhaldari í Nesi, segist hafa verið mjög spenntur fyrir þessu tímabili. „Við vorum farin að sjá lax svo snemma. En nú er tilfinningin sú að þetta verði meðalsumar.“ Hann frétti af smálöxum sem voru byrjaði að veiðast niðri á Laxamýrarsvæði og þótti honum það góð vísbending. „Það sem er jákvæðast hjá okkur er að allir veiðistaðir eru inni. Það er nokkuð óvanalegt svona snemma,“ sagði Árni Pétur. Þriðja hollið er nú við veiðar í Nesi.

Margir „níutíukallar“

Um 60 laxar eru komnir á land í Selá í Vopnafirði. Nokkuð er komið af fiski í ána og er útlitið gott að sögn Gísla Ásgeirssonar hjá Streng, sem leigir bæði Selá og Hofsá. Enginn fiskur yfir metra er kominn á land en 99 sentímetra hængur veiddist í gær í Rauðhyl í Selá.

Í Hofsá var búið að landa 60 löxum í gærkvöldi og segir Gísli að þar sé svipuð staða og að menn séu bjartsýnir á framhaldið og sumarið.

„Enginn sem hefur náð 100 sentímetrum þar heldur en mikið af „níutíuköllum“ og fiskurinn er flottur og vel haldinn,“ sagði Gísli í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Ríflega hundrað úr Vatnsdalsá

Í gærkvöldi voru komnir 103 laxar í veiðibókina í Vatnsdalsá. Einn fiskur hefur náð 100 sentimetra lengd og veiddist hann í Hnausastreng sem hefur fóstrað margan stórlaxinn. Í gær var sett í mjög stóran fisk í Stekkjarfossi. Björn K. Rúnarsson, leiðsögumaður í Vatnsdal, segir að fiskurinn hafi straujað niður ána einhverja 500 metra. „Þetta var fiskur í yfirstærð. Eftir 45 mínútna viðureign sleit hann og fór,“ sagði Björn í samtali við Sporðaköst í gær.

Hann segir nokkuð af fiski gengið upp fyrir Flóðið en oft hefur það einmitt verið mikil fyrirstaða og snemma sumars hefur veiðin nánast eingöngu verið neðan Flóðsins. Nú hefur mikið vatn gert það að verkum að fiskurinn dreifir sér betur. Björn segir að göngur séu að aukast og að útlitið sé ágætt.

Gunnar Kristófersson með vorfisk úr Vatnsdalsá. Hvíti liturinn á nýgengnum …
Gunnar Kristófersson með vorfisk úr Vatnsdalsá. Hvíti liturinn á nýgengnum laxi er hreint út sagt magnaður. Ljósmynd/Aðsend

Áttatíu úr Víðidal

Holl sem lauk veiðum í Víðidalsá á hádegi í gær var með 21 lax, en veitt er á átta stangir. Samtals voru þá komnir áttatíu laxar úr ánni. Fiskur er farinn að dreifa sér um ána en aðstæður eru erfiðar. Vatnið mjög kalt og áin enn vatnsmikil.

Sjóbleikjan er farin að láta sjá sig og fengust nokkrar upp í fimm pund í vikunni.

Stóru hængarnir eru enn ekki farnir að sjást og binda menn vonir við að þeir fari að láta sjá sig í kringum miðjan mánuðinn. Tveggja ára hrygnurnar sem hafa veiðst undanfarið eru flottar og vel haldnar og margar á bilinu 84 til 90 sentímetrar. Takandi mið af hversu flottar hrygnurnar eru má búst við fallegum tveggja ára hængum.

Átján laxa dagur í Ásunum

Átján laxar veiddust í gær í Laxá á Ásum. Bókaðir hafa verið 120 laxar frá opnun. Sturla Birgisson leigutaki segir að nú séu laxar að ganga á hverju flóði og göngurnar muni bara aukast fram að stórstreyminu sem er í næstu viku.

Brennan að nálgast 200

Mjög góð veiði hefur verið í Brennunni en svo heitir þriggja stanga veiðisvæðið þar sem Þverá og Hvítá í Borgarfirði sameinast. Góð veiði í Brennunni er algerlega í takti við þá miklu laxgengd sem er í Þverá og Kjarrá.

Rólegt í Jöklu og í Breiðdal

Sextán laxar voru komnir á land úr Jöklu í gærkvöldi og fimm fiskar úr Breiðdalsá fyrir austan. Þröstur Elliðason leigutaki segir að ástundun hafi ekki verið mikil en þeir sem hafi farið hafi veitt ágætlega og orðið varir við nokkurt líf, sérstaklega í Jöklu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert