Veiðimaður vikunnar er Harpa Hlín Þórðardóttir. Hún er alhliða veiðimaður og stundar bæði stangaveiði og skotveiði. Nú stendur vertíðin sem hæst hjá Hörpu, en hún starfar hjá Iceland Outfitters, sem er félag sem leigir ár og selur veiðileyfi. Harpa og eiginmaður hennar Stefán Sigurðsson eiga félagið saman og vinna þar bæði ásamt fleira öflugu fólki.
„Já þetta er draumastarfið,“ segir Harpa í samtali við Sporðaköst.
En hvaðan kemur þessi mikli veiðiáhugi? Hún svarar að vörmu. „Hann er áunninn. Um svipað leyti og ég fór að vinna í veiðibransanum kynntist ég manninum mínum, honum Stefáni og svo hef ég sogast inn í þetta. Minning mín frá veiði í barnæsku er ekkert sérstök. Blaut samloka í Þingvallavatni og stundum kannski lítill fiskur. Og já kalt og blautt.“
Vörumerki Hörpu er varalitur og naglalakk. Hún birtir mikið af myndum af sér á samfélagsmiðlum með bæði fiska og aðra bráð. Allar myndirnar eiga það sameiginlegt að Harpa er stíf-varalituð og með áberandi naglalakk.
„Mér finnst skemmtilegt að hafa mig til áður en ég fer að veiða.“ Hún stingur hendinni í vasann á veiðijakkanum og sýnir þrjá varaliti. „Þetta er staðalbúnaður hjá mér. Annars er ég loksins búin að finna rétta veiðivaralitinn. Það hefur tekið mörg ár.“
Og hver er rétti veiðivaraliturinn?
„Þeir eru reyndar tveir. Það er Sephora og LipSence. Þeir fást því miður ekki á Íslandi en ég birgi mig upp þegar ég fer út. Þessir varalitir duga allan daginn og það skiptir máli.“
Ertu ekki spurð mikið út í þetta?
„Jú, ég er mjög oft spurð út í þetta. Raunar ef það gerist að ég gleymi varalitnum þá er ég gjarnan spurð hvort ég sé veik.“
Harpa segist eiga erfitt með að gera upp á milli stangveiðinnar og skotveiðinnar. „Ég hef hins vegar meiri tíma fyrir skotveiðina. Þá er minna að gera hjá mér í vinnunni og maður á auðveldara með að njóta. Ég hef mjög gaman af stangveiðinni en þá er verið að sinna svo mörgum öðrum verkefnum samhliða því og maður þarf stöðugt að vera að taka símann og redda hlutum.“
Fyrirtæki Hörpu og Stefáns tók á leigu hluta Þjórsár í fyrra og það hefur lukkast ótrúlega vel. Hvort eru þið heppin eða svona útsjónarsöm?
„Væntanlega sambland af því að hugsa aðeins út fyrir boxið og vera tilbúin til að taka smá áhættu. Þjórsá hefur verið algert ævintýri og magnið af fiski sem gengur upp ána er ótrúlegt. Við erum með fimm laxa kvóta á stöng á dag en það er ljóst að góður veiðimaður gæti veitt nánast ótakmarkað magn þarna, sérstaklega á þessum tíma. Við viljum auðvitað vera ábyrg og á meðan við erum að átta okkur á möguleikum og getu svæðisins.“
Iceland Outfitters hefur bætt við sig tveimur svæðum í Þjórsánni. Það austurbakkinn sem kenndur er við bæinn Þjórsártún og í síðustu viku var samið við bæinn Kálfholt og bætast þar við tvær stangir sem fara í sölu í vikunni. „Það er aðeins öðruvísi svæði en Urriðafoss. Meira um breiður og líkast til vænlegra til fluguveiði.“
Harpa hefur veitt víða, sérstaklega síðari ár. Í byrjun ferilsins veiddi hún mest í Ytri-Rangá en hefur upp á síðkastið veitt í sífellt fleiri ám og henni finnst skemmtilegt að skoða ný veiðisvæði. Hún var til dæmis í Langá í síðustu viku og fannst frábært að kynnast þeirri á. Á listanum yfir ár sem hana langar að prófa eru; Hafralónsá, Svalbarðsá og Sandá á Norð-Austurlandi.
Þú ert að leita að stórfiski?
„Já.“
Stærsti fiskur sem Harpa hefur landað var 96 sentímetra hængur í Laxá í Dölum. Það var fyrir tveimur árum í Höskluldsstaðastreng. „Ég hafði fram að þeim tíma aldrei náð að landa alvörustórfiski. Ég var farin að halda að ég myndi aldrei ná að veiða svona stóran fisk. Enda fann ég það um leið og ég setti í hann að þetta var annar og öðruvísi leikur. Ég var með hjartað í buxunum allan tímann sem ég þreytti þennan lax. Stefán var með mér og ég held að hann hafi verið stressaðri en ég því honum hefði sennilega verið drekkt ef löndunin hefði klikkað. Eftir að við vorum búin að mynda mig með fiskinn og sleppa honum þá fór ég að hágrenja. Ég hringdi beint í bestu vinkonu mína og grét í símann.“ Þegar Harpa sleppir orðinu hlær hún en það er ljóst að henni vöknar um augu við að rifja þetta upp.
En hún setti í mun stærri fisk í fyrra. Það var líka í Laxá í Dölum. Í hinum nafntogaða veiðistað Dönustaðagrjótum. „Úff. Já. Það var erfitt. Stefán var með mér og eftir að ég setti í fiskinn með hans leiðsögn hófst barátta sem ég áttaði mig fljótlega á að ég myndi ekki vinna. Eftir nokkuð langan tíma þegar fiskurinn hafði strikað hylinn á enda þrisvar eða fjórum sinnum lét ég Stefán fá stöngina.“ Þarna blandar Stefán sér í frásögnina. „Þetta var fiskur sem var mjög stór. Vel yfir tuttugu pund. Það var erfitt að eiga við hann og maður þurfti að vera brögðóttur til að ná honum á hliðina til að nálgast háfinn. Ég náði því einu sinni og þá kom Harpa með háf af stærstu gerð. Fiskurinn passaði engan veginn í háfinn og valt bara af honum og út í aftur. Eftir langa mæðu náðum við honum aftur í þessa stöðu og háfurinn fór undir hann en fiskurinn var bara allt of stór. Háfurinn rakst í fluguna og reif hana úr honum. Þar með fór hann.“
Harpa tekur boltann. „Stefán var brjálaður. Stöngin hafði brotnað í átökunum og hann strunsaði upp í bíl. Ég hljóp á eftir og það var ekki sagt orð í bílnum á leiðinni í hús.“
Stebbi aftur. „Keppnisskapið hljóp með mig í gönur. Ég gat bara ekki talað um þetta fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Og við höfum ekkert rætt þetta mikið við fólk.“
Þau hlæja bæði í dag að þessu en maður sér enn votta fyrir vonbrigðum þegar þetta atvik er rifjað upp.
Harpa er í veiðiklúbbnum T&T International. Hún gefur ekki upp hvað skamstöfunin stendur fyrir en segir að merkingin breytist eftir því sem konurnar kynnist betur. Hópurinn fer til skotveiða erlendis og búið er að skipuleggja næstu ferð. „Við erum að fara til Eistlands í haust að skjóta elg. Allar konur sem hafa áhuga á veiði eru velkomnar í T&T en það er eitt skilyrði og það er að vera með rauðan varalit á veiðum.“
Einungis sjö veiðileyfi voru í boði fyrir Eistland og segist Harpa hafa verið fljót að bóka í þessa ferð. Hún tekur skýrt fram að hún leggi mikla áherslu á að þau dýr sem hún fellir séu nýtt. „Ég reyni að taka kjöt með mér en annars fá leiðsögumenn og starfsfólk kjötið. Það er mikið prinsipp hjá mér að dýrin séu nýtt.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |