Hann heitir Sigurður Staples og er veiðivörður og „altmuligman“ í Breiðdalsá og Jöklu og almennt á veiðisvæði Strengja á Austurlandi. Hann er kallaður Súddi og hefur verið viðloðandi Breiðdalsá í rúma tvo áratugi. Súddi hefur létt sig um fimmtíu kíló frá því hann var hvað feitastur og um leið fundið aftur veiðigleðina.
„Ég var orðinn allt of feitur. Ég gat ekki lengur gædað og átti erfitt með að beygja mig. Ég gat sagt mönnum til og háfað og svoleiðis en að ætla að beygja sig og taka flugu úr laxi og mæla, það gekk ekki. Ég ætlaði aldrei að ná að standa upp,“ segir Súddi sem er veiðimaður vikunnar.
Vigtin sýndi orðið 185 kíló og hnén voru að gefa sig. Súddi fór í magaaðgerð og hefur upp frá því snúið lífi sínu við og segir lífið nú léttara og skemmtilegra. „Ég fer alltaf suður í rúma tvo mánuði til vinafólks yfir jólin og þá bætti maður á sig. En svo þegar maður kom aftur í geimið hérna og er meira í geiminu þá brennir maður meira. Ég er búinn að brenna af mér tólf kílóum í sumar. Ég er farinn að veiða miklu meira aftur. Farinn að veiða lax og þá er ég að ganga mikið. Ég fór í frábæran túr með Bogga Tona vini mínum og Helgu í Jöklu í sumar. Þetta hefði ég ekki getað fyrir nokkrum árum.“
Er þetta ekki allt annað líf?
„Jú. Maður er að njóta þess að veiða aftur. Ég var farinn að veiða sjóbleikjuna fyrst og fremst af því að það var miklu léttara. En svo fékk ég bara ástríðu fyrir sjóbleikju. Þetta er sterkasti fiskur, pund fyrir pund, sem hægt er að veiða á Íslandi. Hún gefst ekki upp. Hættir aldrei og eina leiðin til að koma henni í háfinn er að ná að lyfta hausnum upp úr vatninu.“
Hann segir að mikið sé af bleikju á ferðinni í ár og þær séu óvenjuvænar. Hann segist sjá það bæði í Breiðdalnum og Fögruhlíðarós. „Það er óvenjumikið af vænni bleikju allt upp í fimm pund.“
Súddi hannar sjálfur flugur og þessi misserin er hann mikið að veiða á flugu sem hann kallar Bíbí. „Hún er nefnd eftir presti sem var kallaður Bíbí af því að hann borðaði bara eins og lítill fugl, þegar hann var strákur í sveit hérna.“
Hér áður fyrr veiddi Súddi mest á Kröflu orange, hvort sem var í bleikju eða laxi. Hann fékk oft tog í hárin, þar sem fiskurinn tók ekki fluguna heldur var aðeins aftan við hana. Þá breytti Súddi flugunni og setti hvítt Marabou í staðinn fyrir hárin. Þegar hann fór að sleppa bleikjunni klippti hann tvo öngla af þríkrækjunni og var smám saman kominn með nýja flugu. Súddi fékk svo hnýtara til að hnýta þessa flugu fyrir sig. „Svo hafði doktor Jónas samband við mig og spurði hvort þessi fluga mætti ekki heita Súddi. Þá var hann farinn að fjöldaframleiða hana. Mér var alveg sama um nafnið en ég ákvað að nota hana ekki framar. Ég gat ekki farið að bóka allar bleikjurnar sem ég veiddi á fluguna Súddi. Það hefði verið of mikið. Too much.“
En svo gerðist það um daginn að Súddi var í sjóbleikju við ósinn í Breiðdalsá og hún tók ekkert hjá honum. „Það var bara í örvæntingu sem ég ákvað að skella Súddanum undir og fékk eina bleikju á nafna minn.“ Svo gerðist það að Súddi fór daginn eftir og þá kastaði hann eingöngu Súdda. „Ég ákvað að vera ekki með neina aðra flugu. Og þennan morgun fékk ég ellefu bleikjur.“
Franskt kvikmyndatökulið kom til Íslands að veiða og mynda og þeir fóru meðal annars í Fögruhlíðarósinn. Markmiðið var að veiða sjóbleikju. „Ég var þarna með þeim og þeir voru ekki að setja í hana. Ég var með Bíbí undir og ég setti í bleikju eftir bleikju. Ég fór að skoða flugurnar sem þeir voru með og lét svo þennan aðalgæja fá Bíbí og hann setti í tuttugu bleikjur í röð. Svo kallaði hann til mín. „Man this is a good fly.“ Þeir fengu sjötíu og sjö bleikjur og einhverja sjóbirtinga. Gerðu svakalega veiði. Ég var búinn að rannsaka þetta og stillti honum upp þar sem stærsta bleikjan var og hann var að fá upp í 55 sentimetra bleikjur.“
Og verður þetta sýnt í franska sjónvarpinu í vetur?
„Þetta er einhver kapalstöð í Frakklandi og Kanada. Ég hélt fyrst þetta væri franska sjónvarpið en svo kom í ljós að þetta er einhver kapalstöð.“
Súddi borðar mikið af sjóbleikju og finnst hún frábær matur. Hann smjörsteikir hana og sykrar. Notar ekkert krydd bara sykur. „Mér finnst hún albesti matfiskurinn. Vinsælast hjá mér er aðferð sem vinur minn og veiðifélagi Boggi Tona kenndi mér. Við setjum sykur í kryddstauk. Ég var oft að reyna að nota teskeið, en ég titraði svo mikið að þetta varð mjög ójafnt. Miklu betra að nota kryddstaukinn. Þá verður þetta jafnt og gott.
Ég set smjör á pönnuna og sykra bleikjuna og steiki hana roðmegin fyrst. Flippa henni yfir, bara stutt til að steikja hana aðeins fiskmegin. Svo aftur roðmegin þannig að roðið verði stökkt. Ég borða ekki slepjulegt roð en svona er það gott.“
Ertu ekkert að krydda hana? Bara sykur?
„Já ég vil ekki drekkja bleikjubragðinu. Ég gerði það um tíma að setja sítrónupipar á hana og það er alveg gott. En mér finnst hitt vera miklu sterkara bleikjubragð. Þú finnur ekki sykurbragðið, það kemur bara keimur.“ Hann segist nota eina teskeið af sykri á meðalstórt bleikjuflak. Svo borðar hann með þessu kartöflur og hrásalat og normalbrauð.
Hvernig er staðan á laxi fyrir austan Súddi?
„Hjá okkur er þetta erfitt sumar. Sleppingin í Breiðdalnum hefur eitthvað mistekist. Við erum aðeins að sjá tveggja ára fisk og svo er náttúrulegi stofninn í Tinnudalsá að skila fiskum sem eru svona sjö til þrettán pund.“ Hann dæsir. „En það verður settur kraftur í þetta núna. Jökla er orðin sjálfbær þannig að öllu verður beint í Breiðdalsána og þar eru bjartari tímar fram undan.
Hafrannsóknastofnun hefur verið að mæla hrygningu og seiði í Jöklu og þeir eru mjög ánægðir með hana. Þetta byrjaði líka rosa vel og var hörkuveiði. Svo kom bara helvítis yfirfallið. Ef við hefðum fengið frið út ágúst er ég klár á að við hefðum farið í þúsund laxa í Jöklu. Þarna voru að koma alvörugöngur og hefði verið gaman að veiða hana lengur.“
Uppi eru áform um að auka sleppingar á laxaseiðum í hliðarár Jöklu þannig að þó að hún fari á yfirfall verði hægt að veiða Laxá, Kaldá og Fögruhlíðará. Þá eru uppi hugmyndir um að stórauka sleppingar í Breiðdalsá, jafnvel tvöfalda sleppingu frá því sem var í fyrra.
Súddi er mjög hrifinn af gömlu veiðiþáttaseríunni sem einmitt bar nafnið Sporðaköst. „Við vorum að tala um þetta í gær. Ég var að gera kjötsúpu sem þykir mjög... fær alltaf mjög góða dóma. Ég var spurður hvar ég hefði lært að gera svona góða kjötsúpu. Ég sagði að ég hefði lært þetta í Sporðakastaþætti. Einn spurði; hvað meinarðu? Ég sagði honum að ég hefði verið að horfa á þátt um Ytri-Rangá og þar var Arthúr Bogason að gera kjötsúpu. Þeir létu hana malla í mauk á meðan þeir veiddu vaktina. Ég hef frá þessu alltaf gert þetta svona. Læt hana malla bara í sex tíma.“
Vinir Súdda gleðjast margir yfir því að kallinn er búinn að létta sig og eins og einn þeirra orðaði það: „Það er dásamlegt að sjá hann aftur úti í á, þar sem hann á heima.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |