Stulli um eldislaxinn „Skrifað í skýin“

Í þessari veiðiferð fékk Sturla draumafiskinn en ferðin breyttist brátt …
Í þessari veiðiferð fékk Sturla draumafiskinn en ferðin breyttist brátt í martröð. Ljósmynd/Aðsend

Sturla Birgisson, rekstraraðili Laxár á Ásum og matreiðslumeistari er veiðimaður vikunnar. Raunar myndu margir veiðimenn segja að hann væri veiðimaður sumarsins, eftir dramatíska veiðiferð í Vatnsdalsá um mánaðamótin ágúst september. Þar landaði Sturla, eða Stulli eins og hann er jafnan kallaður 102 sentímetra fisk úr Hnausastreng. Stórglæsilegu eintaki og fiski eins og flesta veiðimenn dreymir um. En draumaferðin breyttist í martröð. Stulli setti í bjartan fisk og eftir þrjátíu sekúnda viðureign sneri laxinn maganum upp og Stulli dró hann í land.

Óskar Alfreðsson veiðifélagi Stulla sporðtók fiskinn og þeir voru fyrst í stað mjög hissa hvað þetta væri eiginlega. Ekki sjóbirtingur en voru einfaldlega ekki vissir um hvað þeir höfðu veitt. Þegar Pétur Pétursson leigutaki sá fiskinn var hann strax sannfærður um að þetta væri eldislax.

„Ég hugsaði bara með mér, af hverju ég af öllum mönnum. Hvað er þetta?“ sagði Sturla í samtali við Sporðaköst.

Nokkrum dögum eftir að Sturla landaði eldislaxinum, samdi Klúbbur matreiðslumeistara við Arnarlax sem er stórtækt laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum um að verða styrktaraðili kokkalandsliðsins.  Í framhaldi af því birti Sturla yfirlýsingu á facebook síðu sinni og lýsti því yfir að hann væri genginn úr Klúbbi matreiðslumeistara. Boltinn rúllaði hratt eftir þetta. Allir kokkarnir í kokkalandsliðinu sögðu sig frá liðinu vegna samningsins.

Ef þú hefðir ekki veitt þennan eldislax hefðu þín viðbrögð þá orðið önnur?

„Já, mín viðbrögð hefðu ekki orðið svona sterk. Þarna bara upplifði ég það sem við allir óttumst. Að eldislax fari að ganga í laxveiðiárnar okkar. Ég bara veiddi einn slíkan.“

Þannig að þetta er ótrúleg tilviljun?

„Það var búið að skrifa þetta í skýin. Nokkrum dögum síðar kemur í fréttum að klúbburinn var búinn að semja við Arnarlax og ég er sannfærður um að fiskurinn sem ég veiddi er úr þeirra stöð. Ég varð á þessum tímapunkti að velja í hvaða liði ég ætlaði að vera. Það var bara þannig.“

Hann átti ekki von á miklum viðbrögðum þegar hann setti inn færsluna. „Ég bjóst við að einhverjir veiðikarlar tækju undir þetta og hefðu áhuga. En það var öðru nær og í mínum huga endurspeglar það hversu mikil umræðan er í þjóðfélaginu um þetta og ótrúlega margir hafa áhyggjur af þessu. Bara nokkrum mínútum eftir að ég setti færsluna út voru fjórir fjölmiðlar búnir að hafa samband. Og ég bara hef aldrei fengið svona viðbrögð og ég man að ég hugsaði með mér, í hvaða rússíbana er ég lentur núna?“

Ætlar að ganga aftur í KM

Þú ert ekki meðlimur í KM í dag?

„Nei ég er genginn úr klúbbnum.“

Ætlarðu að endurskoða þá ákvörðun?

„Já. Ég ætla að ganga í klúbbinn aftur þegar ég veit að samningnum hefur verið rift. En það hefur ekki gerst ennþá. Það er ekki endanlega frágengið. Ég veit ekki stöðuna á því í dag og menn eru að skoða hvernig best verður staðið að riftuninni. Það hafa verið mikil fundahöld um þetta en niðurstaðan liggur ekki fyrir.“

Óskar Alfreðsson veiðifélagi Stulla með eldisfiskinn sem sá síðarnefndi veiddi. …
Óskar Alfreðsson veiðifélagi Stulla með eldisfiskinn sem sá síðarnefndi veiddi. "Af hverju ég af öllum mönnum?" spyr Sturla. Ljósmynd/Aðsend

Þegar þú hugsar til baka. Var þetta rétt ákvörðun hjá þér?

„Alltaf, alltaf. Ég varð að velja lið. Þetta er ákvörðun sem ég stend með alla tíð. Ég veit að samningurinn var upp á hærri fjárhæð en klúbburinn hefur áður gert, en þetta var og er rétt ákvörðun af minni hálfu.“

En að öðru. Þú varst að loka Laxá á Ásum. Hver var lokaniðurstaða?

„Við enduðum í 702 löxum og maður er bara að stimpla sig inn í raunveruleikann aftur. Kominn úr þriggja mánaða úthaldi frá hinu heimilinu mínu.“

Hvernig var þetta sumar í Ásunum?

„Þetta var þokkalegt framan af sumri. Það komu ágætis göngur í júní og fram í miðjan júlí. Það voru eðlilegar göngur. En svo þegar fór að líða á júlí þá bara kom ekki seinni júlígangan. Það var erfitt hjá okkur eftir miðjan ágúst og fram að lokun. Þetta var enn eitt árið þar sem allt var einhvern veginn fyrr á ferðinni. Bæði fiskur og svo var komið haust í fiskinn miklu fyrr. Takan var bara búin.“

Þyngdur Skuggi bjargaði miklu

Margir hafa einmitt rætt þetta. Síðsumarsgöngur létu ekki sjá sig og það slokknaði fyrr á þessu. Var það þín upplifun?

„Já það var svoleiðis. Það vantaði ekki fiskinn á þessa hefðbundnu staði en það var vonlaust að fá hann til að taka, bara alveg sama hvaða aðferð eða flugu var beitt. Ég fór í Langhyl síðasta daginn og það var bara búið að draga fyrir og þeir sögðu bara, farið heim. Við erum farnir að hugsa um annað hér.“

Stulli hlær að þessu. Hann segir að öll skilyrði hafi verið frábær, vindur og því gára á hylnum og hitastigið fínt. En ekkert virkaði.

Sáttur við þessa niðurstöðu? Sjö hundruð laxar?

„Þetta slapp svona fyrir horn. Júlí hollin skiluðu ágætis veiði og ánægðum viðskiptavinum og allir fóru brosandi heim. Ég er búinn að vera skoða þetta langt aftur í tímann og var sjálfur leiðsögumaður þarna í mörg ár og maður man ekki eftir lélegu sumri í leiðsögn. Ásarnir skila alltaf sínu á besta tíma en svo geta endarnir verið lélegir í erfiðu sumri.“

Var einhver fluga eða aðferð sem virkaði óvenju vel í sumar hjá ykkur í Ásunum?

„Já það var ein sem bjargaði miklu í þessa mikla vatni sem við vorum í framan af sumri. Það var Skuggi með hexacon haus, hálf tomma og sú fluga bjargaði mörgum veiðimanninum. Þetta var svo skrítið sumar. Ásarnir eru frægir fyrir hitch og tökuglaðan lax í yfirborðinu en hann var bara ekki að koma upp svona eins og við þekkjum. Við þurftum bara að fara niður og ná í hann.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert