Valgerður Árnadóttir Baldurssonar er veiðimaður vikunnar. Hún á ekki langt að sækja veiðidelluna. Sjö mánaða fór hún í sinn fyrsta veiðitúr og var þá nýbúin að læra að sitja. Fjögurra ára gömul fékk hún verkefni hjá pabba á hverjum degi. Snemma dags þegar hún skottaðist með pabba sínum og félögum fékk hún orm í lófann. „Passaðu nú þennan fyrir pabba.“
Hún hlær. „Svo var það yfirleitt í síðasta kasti kvöldsins að hann bað um að fá maðkinn. Þú getur rétt ímyndað þér hver staðan var á honum þegar ég rétti pabba hann,“ dillandi hlátur þegar Vala Árnadóttir hugsar til baka.
„Í dag yrði þetta örugglega tilkynnt til barnaverndarnefndar. En mikið lærði ég á þessu og er þakklát fyrir að hann leyfði mér alltaf brasa sjálf og gera mistökin og læra af þeim,“ segir Valgerður Árnadóttir í samtali við Sporðaköst.
Hún er hörkuveiðimaður og hefur veitt um allan heim. Í Noregi, Mexíkó, Belís, Grænlandi og víðar og víðar. Það er óhætt að segja að hún víli ekkert fyrir sér í þessum efnum.
Hver er fyrsta veiðiminningin þín sem þú mannst eftir?
„Ég var sjö ára og við vorum í Straumunum, ég pabbi og mamma og félagar þeirra. Pabbi lagði mikla áherslu á hversu viðkvæmt þetta allt væri og best að hann færi á undan með flugunni áður en ég tæki spúninn í gegnum þetta. Þetta voru miklar ræður um hversu viðkvæmt þetta allt væri. Maður bara ranghvolfdi augunum að hlusta á þessar ræður. En þetta voru reglurnar. Svo gerðist það einn morgun að ég bara gat ekki stillt mig og fór með spúninn í hyl sem pabbi var ekki búinn að veiða. Ég spúnaði þetta í klessu og endaði með því að setja í lax. Ég landaði honum en þar sem þetta var ránsferð þá var ég ekki með rotara. Ég hljóp upp í hús og fann þar stóran sjampóbrúsa og notaði hann til að rota fiskinn. Svo faldi ég fiskinn en málið komst upp þegar blóðugi sjampóbrúsinn fannst í sturtunni. Ég gleymdi að þrífa hann.“ Hún segir að eftir þetta atvik hafi pabbi hennar farið að taka hana með í bílinn og hún hafi ekki verið skilin eftir ein í húsinu.
Ertu með jafn mikla veiðidellu og pabbi þinn?
„Þetta er mjög góð spurning. Maðurinn er náttúrlega svakalegur. En já á vissan hátt held ég að við séum á pari. Það kemur reyndar misjafnt fram í okkur en já, ég held það. Ef við erum að veiða saman án þess að deila stöng þá erum við mikið í því að plata hvort annað og það er pínu keppni. En ef við erum saman á stöng vinnum við vel saman.
En við erum alveg dugleg að djöflast hvort í öðru þegar við erum hvort með sína stöngina. Hellum duglega rauðvíni í glasið hvort hjá öðru í þeirri von að hitt vakni ekki og liggjum á upplýsingum um hvar við sáum fiska. Það er líka mjög skemmtilegt,“ segir Vala, eins og hún er jafnan kölluð. Hún segist ekki eiga langt að sækja klækjabrögðin og sé kannski búin að læra aðeins of mikið af pabba sínum, og brosir.
„Þegar ég var krakki var pabbi mikið að veiða með Bjössa Roth og strákunum hans. Ég veiddi oft flotta fiska, en var bara lítil stelpa og fannst litlu fiskarnir svo sætir. Þannig að ég var alltaf að býtta. Ef þeir veiddu lítinn fisk vildi ég skipta og þeir fengu stóra fiskinn og ég fékk þann litla. Það fór ekki vel í okkar mann.“ Við bilumst úr hlátri.
En þú hefur fengið góðan skóla?
„Já heldur betur. Og það sem ég kann svo vel við við pabba er að hann lét mig alltaf gera allt sjálf. Var ekkert að hjálpa mér. Hann sýndi mér hvernig ég ætti að kasta flugunni og svo leyfði hann mér bara mistakast þar til ég náði þessu. Ef ég varð blaut eða gleymdi einhverju þá bara var það svoleiðis og maður lærði af reynslunni. Mér þykir ótrúlega vænt um það því maður lærði bara svolítið sjálfstætt.“
En í dag? Ertu mikið að veiða á hverju sumri?
„Já yfirleitt. Reyndar var sumarið í fyrra undantekning en ég hlakka mjög til að koma til baka í sumar. Ég er náttúrlega heppin að vera að vinna hjá mömmu og pabba í Lax-á. Skrifstofan er bara í bílnum og ég fæ mikinn skilning frá pabba. Við erum líka mjög samrýnd í útskýringunum okkar. Við förum mjög oft að skoða svæðin og taka myndir til að geta selt þau sko.“
Maður skilur fyrr en skellur í tönnum. Þau þurfa ekki endilega myndir. Langar bara að fara að veiða?
„Já það var svolítið svoleiðis. Við vildum bara ekki þurfa að greina yfirvaldinu, mömmu, frá því. Þetta var oft þannig að við rifumst um hvort ætti að hringja í hana og hvort hefði hringt síðast.“
Tveir óþekkir krakkar að stelast, er það lýsingin?
„Já kannski einmitt þannig,“ hlær Vala.
Hún á ótrúlega margar minningar en þegar er ýtt á hana viðurkennir hún að Stóra-Laxá sé mjög ofarlega á lista og þaðan á hún margar fallegar minningar.“
„Pabbi var alltaf að segja mér að ég yrði að koma í Stóru. Ég get alveg verið þver og var ekkert að koma. Svo eitt árið gaf ég mig og ég verð að segja að ég hef aldrei kynnst öðrum eins stað.“ Hún verður dreymin til augnanna og sekkur aðeins inn í sig.
„Ég held að uppáhaldstúrinn minn hafi verið stórveiðin 2013. Svo fór ég með dóttur minni þangað og hún fékk sinn fyrsta lax, sex ára gömul, í Neðri-Heimahyl. Það var ótrúlegt og hún landaði 19 punda laxi og þá var pabbi alltaf að hvetja mig til að passa hana, ólíkt því sem hann gerði þegar ég var lítil. En hún landaði þessum laxi og allt gekk vel. Það næsta sem hún spurði var: hvað er langt þar til næsti tekur.“
Vala hlær að þessu og segir einmitt: hvernig á maður að útskýra fyrir barni að þú bíður kannski alla ævi eftir tuttugupundara.
Vala þekkir ekkert annað en að vera ein af strákunum og skottast með pabba sínum. En stundum finnst henni nóg komið.
„Ég þarf stundum að segja við strákana: Hey ég er stelpa. Þið eigið ekki að vera að prumpa svona mikið í bílnum og stundum er maður bara orðinn grænn í framan. Til dæmis úti í Mexíkó þá var alltaf sagt eftir morgunmat: „Jæja strákar, nú erum við allir að fara að kúka því við komum ekki heim í allan dag.“ Og ég bara einmitt. Þá horfa þeir á mig og segja: „Æ, Vala þú kúkar líka. Hlýddu bara.““
Hún segist hafa alist upp við að vera með strákum í veiði og finnst það eðlilegt í dag. „Ég áttaði mig fljótt á því að fiskurinn er ekki að spá í hvort sá sem er á hinum endanum er með pung eða ekki.“
Vala er núna stödd á ION-svæðinu á Þingvöllum og Sporðaköst eru búin að heita á hana að hún fái einn risastóran og við viljum mynd í staðinn. Hún var ískrandi af spenningi að fara í fyrstu veiði vorsins og vonandi verður spennandi hjá þeim.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |