Ragnheiður Thorsteinsson er veiðimaður vikunnar, eða Ragga Thorst. eins og hún er gjarnan kölluð. Hún byrjaði ung veiði í Hraunholtslæknum í Garðabæ og Vífilsstaðavatni, bæði lærði hún af bræðrum sínum og átti einnig marga vini í æsku sem höfðu veiðibakteríuna. „Geir bróðir var sérstaklega duglegur þarna. Lá á bakkanum og tíndi þá upp. Ætli ég hafi ekki verið svona níu ára þegar ég fór að veiða þarna reglulega með vinum mínum sem áttu heima þarna í kring. Við fórum líka mikið upp í vatn og á þeim tíma fannst manni þetta mikið ferðalag og var gjarnan búinn út með nesti og nýja skó. Stundum tjölduðum við og lágum bara við og veiddum fiska. Þetta var dásamlegt,“ segir Ragga í samtali við Sporðaköst.
„Það var mikil veiðihefð í minni fjölskyldu. Afi hafði verið með Flekkudalsá á leigu, þó að það væri fyrir mína tíð, og pabbi veiddi mikið og var alveg ágætis laxveiðimaður. Hann stundaði spúnaveiðina í Blöndu og færði sig svo yfir fluguveiðina. En hann hætti svo að veiða og sagði mér að lax hefði litið í augun á sér.“ Ragga hlær að þessu og segist ekki skilja almennilega hvað gerðist, en engu að síður hætti hann að veiða.
„Hann fór samt alltaf með okkur í Vatnsdalinn á silungasvæðið. Hann tók allar stangirnar og við fórum alltaf saman tvær stórar fjölskyldur. Þetta voru hátt í þrjátíu manns.“
Þetta eru greinilegar ljúfar minningar því Ragga er eitt bros í framan þegar hún talar um þetta. Sérstaklega er henni minnisstætt sumarið 1986 þegar mikið gekk af stórlaxi í Vatnsdalinn. „Ég man að Pétur bróðir veiddi ríflega 27 punda lax einn daginn.“
Frá þessu ævintýri var greint í blöðunum. Í dálkinum Eru þeir að fá hann var sagt frá stórlaxi á silungasvæðinu í Vatnsdalsá. „Þeir gerðu sér lítið fyrir og veiddu 21 lax og var sá stærsti 27 punda, grálúsugur hængur sem Pétur Thorsteinsson veiddi á afbrigði af Collie Dog. Er þetta einn af stærstu löxum þessa mikla stórlaxasumars,“ segir í fréttinni. Einnig er nefnt að hollið hafi fengið 20 punda grálúsugan hæng og annan 17 punda. Þeir voru teknir á maðk. Hópurinn var við veiðar 13.-16. ágúst.
„Mig minnir að þetta hafi verið í Brúarhyl og auðvitað var hann bara rotaður og reyktur.“
Ragga segir að eftir þetta hafi hún að mestu flotið frá veiðinni og „ég gerðist bara pæja og það var hörkuvinna“, hlær hún.
Stóra breytingin í hennar veiðilífi varð svo árið 1998. Henni var boðið að koma inn í kvennaholl sem var að fara í Norðurá. Á þessum tíma var leyfður maðkur í Norðurá. „Helmingur hollsins voru hjúkrunarfræðingar og þær settu margar upp latexhanska þegar þær voru að beita maðkinum. Þær gátu ekki hugsað sér að snerta hann.“
Ragga glímdi ekki við þetta vandamál. Hún var búin að taka ákvörðun um að veiða eingöngu á flugu. „Ég man að ég var með leiðsögumann og það var Sigurður Héðinn, eða Haugurinn. Ég hafði nú ekki meira vit á þessu en að ég var með gamla Hardy-stöng frá pabba og hélt að það væri hægt að setja þetta einhvern veginn saman og fara að veiða á flugu. Ég kunni ekkert í þessu. Ég hafði bara mikið horft á aðra en kunni sjálf ekki neitt í fluguveiði. Óð út í miðja veiðistaðina og stóð oft á tökustaðnum en vildi ómögulega að leiðsögumaðurinn væri að hjálpa mér of mikið. Hann mátti ekki kasta fyrir mig og ég vildi helst að hann gerði ekki neitt. Enda núllaði ég í þessari ferð.“ Henni er skemmt við að rifja þetta upp.
Ragga segir ferðina hafa verið frábæra og hina bestu skemmtan. En eftir þetta varð ekki aftur snúið. „Ég sturlaðist bara. Veiðibakterían sem var svo sterk í mér þegar ég var yngri tók núna völdin. Þetta var svo skemmtilegt. Ég fór af stað og fór þá meira í silungsveiði og í hin ýmsu vötn. Svo upp úr 2003 dregur Brynja vinkona mín mig í skemmtinefnd Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Í framhaldi af því byrjaði ég að veiða miklu meira. Þá var Norðurá aðaláin og líka Hítará. Svo var maður alltaf að elta Geir bróður í Elliðavatn og hélt þeim sið að fara í Vífilsstaðavatnið í byrjun tímabils.“
Hún fékk sinn maríulax á þessu endurkomutímabili. Var þá í Vatnsdalsá, á silungasvæðinu, og hún man vel eftir þessu. „Þetta var árið 1999. Ég var í Brúarhylnum og var með rauðan Frances. Það var heitt úti, yfir tuttugu stig, og hádegisfréttirnar voru að byrja á RÚV þegar ég gekk að ánni. Ég fór út í og byrja að kasta. Ég kastaði í svona hálftíma og ég held að það hafi alltaf verið á nákvæmlega sama stað. Það voru allir búnir að gefast upp á mér og komnir upp í bíl og það var farið að flauta úr bílnum. Þá allt í einu tók hann. Djöfull brá mér og ég byrjaði að garga og garga á aðstoð en enginn heyrði í mér. Ég hafði náttúrlega fengið fiska áður þannig að ég vissi svo sem alveg hvað átti að gera. Svo loksins kom aðstoð og ég fékk hjálp við að landa þessum fimm punda laxi.“
Hvernig var tilfinningin þegar honum hafði verið landað?
„Bara, ég get ekkert lýst því. Kom upp í veiðihús. Allir bræður mínir búnir að núlla og stelpan með þetta. Ég get bara ekki sagt frá tilfinningunni. Ég tek hins vegar eftir því að það er svona montsvipur á öllum myndum sem eru til af þessum fiski og mér,“ hlær okkar kona. Hún heldur áfram: „Svona yfirlætissvipur, eins og maður hafi sigrað, og ekki síst sjálfan sig.“
Ári síðar átti Ragga aftur draumastund í Brúarhyl. Þá tók hún þrjá í beit í hylnum og okkar kona var öll að koma til. Bæði hvað varðaði þekkingu og einnig sjálfstraust.
„Áður fyrr var fiskur út um allt í Vatnsdalnum. Og þetta var ofurlítið skrítið. Það mátti drepa allt á silungasvæðinu en ekki uppi í á.“
Eftir að Ragga var búin að ná meiri tökum á veiðinni fór hún að fara meira með manninum sínum, honum Einari Rafnssyni kvikmyndatökumanni. „Við fórum að fara í Langá. Þetta var alveg í lok júní til að byrja með. Svo færðum við okkur fram um nokkra daga og veiddum í byrjun júlí. Þetta er svo magnaður tími. Þarna er hann að byrja að ganga og þegar hann mætir þá er at. Þetta eru okkur draumatúrar. Við förum frekar í Langá en til London, þó að það sé orðið helmingi dýrara að fara þangað en til London. Þetta höfum við gert í rúman áratug.“
Hún hefur lært mikið á þessum tíma og segist í dag alveg sofa nóttina fyrir veiðitúr en er enn að glíma við það að vera ekki of spennt. „Væntingarnar eru svo gríðarlegar og ég þarf alveg að vanda mig að vera ekki of spennt þegar ég loksins kemst í túrinn.“
En það er fleira sem hefur breyst hjá Röggu. Hún er hætt að nota stórar flugur og er mest í dag að veiða í yfirborðinu. Eftirlætisstærðin hennar á flugum er nr. 16 og 18 og þá á flotlínu. „Er bara komin þangað fyrir mig og mína veiði.“
Hún sogaðist meir og meir inn í starf fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Tók sæti í sjötíu ára afmælisnefnd félagsins og endaði með að bjóða sig fram til stjórnar. Hún náði glæsilegu kjöri og hefur setið í stjórninni í níu ár með hléum. Hún hlaut kjör nú síðast á aðalfundi félagsins og unir hag sínum vel.
En að allt öðru. Þú hefur komið að þáttagerð um veiði í sjónvarpi. Hvernig var það?
„Heyrðu, já það var magnað. Við Einar fluttum inn til landsins á sínum tíma sérstaka myndavél sem heitir PoleCam. Við sáum þessa vél á sundmóti á Ólympíuleikunum, þannig að við fórum og tékkuðum á þessu, við hjónin. Þetta er framleitt í Bedford í Englandi og með þessari vél náðum við, að því er við viljum meina, fyrstu flugutökunni undir yfirborði. Við vorum í Leirvogsá og vorum að gera myndina með Gunnari Helgasyni, Af hverju tekur laxinn, og svo kom framhald af henni sem var Svona tekur laxinn. Maður þarf eiginlega að fara að endurútgefa þetta, það er svo mikil eftirspurn eftir þessu. Vandamálið við þetta er hins vegar að þessi vinna svarar ekki kostnaði og maður fær tæpast laun við þetta og þetta er þrælavinna.“ Við erum sammála.
Eru ekki bara vitleysingjar sem standa í þessari sjónvarpsþáttagerð um veiði?
„Jú, Eggert, það eru bara vitleysingar sem standa í þessu!“ Við skellihlæjum bæði.
Ragga gerði líka myndina Áin með Bubba Morthens. Þar var Laxá í Aðaldal viðfangsefnið og var sú mynd einkar vel heppnuð. Ragga hafði ekki veitt Nessvæðið fyrr en í fyrra og finnst það dulmagnaðar slóðir. Þau Einar veiddu þar í þrjá daga en núlluðu. Hún var samt ánægð.
Við erum sammála um að verðið á laxveiði og ekki síst á gistingu og mat er komið út fyrir þau mörk sem venjulegur Íslendingur getur ráðið við. „Þú myndir aldrei panta þér hótelherbergi í útlöndum fyrir tvo sem kostar sextíu þúsund, þó að fæði sé innifalið. Þetta er orðið allt of mikið. Mig langar til þess að Stangó geri eitthvað í þessum málum og að við í stjórninni finnum einhvern flöt á því að lækka þennan kostnað og kannski breyta svolítið þessari hefð á að borða þríréttað seint á kvöldin og fram á nótt.“ Ég krossa fingur í huganum og vona að hún komi þessu fram. Sjáum til.
En að lokum. Hvernig lítur sumarið út að þínu mati?
„Ég er aðeins smeyk hvað varðar snjóalög og óttast vatnsleysi. Hins vegar er ég bara eins og hinir vitleysingarnir að vonin er svo sterk. Trú, von og kærleikur er það eina sem þarf. Ég ætla að trúa því að fiskurinn komi og krúttist með okkur.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |