„Dragðu hægar en þér finnst eðlilegt“

Árni Kristinn með flotta bleikju úr Þingvallavatni. Bleikja er hans …
Árni Kristinn með flotta bleikju úr Þingvallavatni. Bleikja er hans ástríða. Ljósmynd/Úr safni ÁKS

Veiðimaður vikunnar er í mörgum hlutverkum í veiðiheiminum. Hann er einn af þríeykinu sem stendur að veiðihlaðvarpinu Þrír á stöng. Hann er í vinnu hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og annast meðal annars veiðivörslu í Elliðaánum. Þá er hann sérfræðingur í bleikjuveiði í Þingvallavatni.

Þetta er Árni Kristinn Skúlason. Hann segir að hugmyndin að hlaðvarpi hafi kviknað í janúar. Þeir félagar eru þrír, eins og nafnið gefur til kynna. Þeir fóru rólega af stað en eru nú komnir á fullt skrið. Fyrir utan Árna Kristin eru það Hafsteinn Már Sigurðsson og Jón Stefán Hannesson sem eru saman á stönginni og stjórna þættinum. Hlaðvarpið er tvískipt. Fyrst fabúlera þeir félagar um málefni líðandi stundar og segja veiðifréttir og ræða hjartans mál. Síðari hlutinn er gestastund þar sem garnir eru raktar úr veiðifólki. Síðasti gestur þáttarins var Harpa Hlín Þórðardóttir, varalitaða veiðidrottningin.

Félagarnir þrír saman á stöng, ásamt Auke van der Ploeg …
Félagarnir þrír saman á stöng, ásamt Auke van der Ploeg sem er lengst til hægri. Árni Kristinn lengst til vinstri. Í aftursæti vinstra megin er Jón Stefán Hannesson og Hafsteinn Már er rangeygður af kulda í vorveiðinni. Ljósmynd/Úr safni ÁKS

Markmiðið er að setja þátt í loftið vikulega en þó hafa þeir félagar fyrirvara á sem er að veiðiferðir þeirra geta sett strik í reikninginn. Og einmitt þegar Sporðaköst náðu tali af Árna Kristni var hann makindalegur í aftursæti bifreiðar á Hellisheiðinni á leið austur í Vatnamót. „Veiðin þar byrjaði bara mjög vel, en dró svo úr henni eins og víða annars staðar. Ég veit hins vegar að hún er aftur að fara á flug seinnipartinn,“ sagði hann hlæjandi. Þeir félagar áttu seinni vaktina þar í gær.

Hægt er að fylgjast með hlaðvarpinu hjá þremenningunum á Spotify, Soundcloud og Apple podcast svo eitthvað sé nefnt. Þeir félagar njóta stuðnings frá Veiðikortinu, Malbygg brugghúsi, Haugi workshop og Flugubúllunni. 

Árni með lax úr Jöklu, seint í september í fyrra.
Árni með lax úr Jöklu, seint í september í fyrra. Ljósmynd/Úr safni ÁKS

Árni Kristinn á ekki langt að sækja veiðidelluna og fékk alvöruveiðiuppeldi hjá pabba sínum, Skúla Kristinssyni leiðsögumanni. „Ég byrjaði bara sem krakki. Við fórum í Apavatn og þar var mest veitt á maðk og ég lærði að bíða eftir því að flotholtið hyrfi og þá rétti hann mér stöngina. Við fórum líka oft í Brúará og vorum þá gjarnan neðan við brú og horfðum á bleikjuna. Pabbi kastaði flugu fyrir þær og lét mig fá stöngina þegar hún var á. Ég á fallegar minningar frá þessum tíma.“

Tæplega sjö ára landaði Árni Kristinn maríulaxinum sínum. Honum er það mjög minnisstætt. „Þetta var á Efri-Hofteigsbreiðu í Eystri-Rangá. Þetta var í október árið 2003 og Ég var rétt að verða sjö ára. Hann tók í öðru kasti og ég var með pungsökku og Þýska-Snældu. Þetta var sjö punda hængur.“

Með maríulaxinn í Eystri-Rangá, haustið 2003. Sex að verða sjö …
Með maríulaxinn í Eystri-Rangá, haustið 2003. Sex að verða sjö ára. Ljósmynd/Úr safni ÁKS

Í dag segist hann helst eltast við bleikju. Það er hans ástríða. „Ég elska að veiða bleikju. Ég eyði miklum tíma í Þingvallavatni og finnst mörg svæði þar mjög skemmtileg. Ég tel mig hafa lært mjög vel á það vatn, enda eyddi ég miklum tíma með pabba þar. Ég lærði mikið af honum um bleikjuna í vatninu. Ef ég ætti að velja einn dag á sumri þá væri það Þingvallavatn í góðu veðri í kuðungableikjuveiði.“

Hann segist veiða um allt vatnið, bæði í þjóðgarðinum og einnig er hann mikið að stunda svæðin sem Fish Partner er með á leigu, eins og Kaldárhöfða, Villingavatnið og Svörtukletta sem IO er að selja í. „Það er töluvert öðruvísi svæði en hin. Þú ert að vaða mjög langt út og veiða malarkant sem breytist svo í leir- og sandbotn. Þar hef ég oft verið á belly-bát og maður er að horfa á bleikjuna við tærnar á sér. Oft eru þetta mjög stórar bleikjur.“

Ein ráðlegging til veiðimanna sem vilja læra meira á bleikjuveiði í Þingvallavatni?

„Það er að hlusta á næsta þátt hjá okkur á Þrír á stöng. Það er rosalegur þáttur um meðal annars bleikjuveiði í Þingvallavatni.“

Já, en eitt heilræði?

„Dragðu hægar en þú telur eðlilegt og engan slaka á línuna.“ Þar höfum við það. Þegar kemur að flugum er valið fremur einfalt hjá veiðimanni vikunnar. Ég er alltaf með tvær flugur. Neðri flugunni breyti ég aldrei. Það er stór Peacock. Efri flugan er ýmist Mobutu, Krókurinn eða Watson Fancy til að nefna einhverjar.“

Heiðarvatn í Mýrdal 10. október í fyrra.
Heiðarvatn í Mýrdal 10. október í fyrra. Ljósmynd/Úr safni ÁKS

Árni Kristinn er í veiðiumsjón hjá SVFR eins og fyrr segir. Hann titlar sjálfan sig sem „manninn á skrifstofunni“ og tekur þar símann og greiðir úr fyrirspurnum veiðimanna. „Ég er líka veiðivörður í Elliðaánum og fer reglulega í hjóla- og gönguferðir meðfram þeim. Ég reyni að vera fyrsti maður á svæðið ef einhver tilkynnir um grun um veiðiþjófnað.“ Hann segir að oft berist tilkynningar um eitthvað grunsamlegt og þá flýtir hann sér af stað.

Hver er algengasta afsökunin sem þú heyrir, ef þú hefur afskipti af mönnum við þessa iðju?

„Menn þykjast ekki vita og gera sér upp vanþekkingu.“ 

Þessa dagana er Árni Kristinn að halda utan um veiðifyrirkomulag í vorveiðinni í Leirvogsá og Varmá. „Já og svo styttist í vorveiðina í Elliðaánum sem byrjar um mánaðamótin. En Varmáin hefur byrjað mjög vel. Auðvitað hafa verið rysjótt veður en Varmá býr að því að hún er hlý og fer sjaldnast niður fyrir átta gráður.“ Árni Kristinn var sjálfur við veiðar í Varmá síðasta laugardag og þá var mjög vaxandi vatn í henni og hún nokkuð skoluð. Þeir fóru saman þrír félagar og lönduðu fimm sjóbirtingum.

„Ég náði einum kjaftstórum 73 sentimetra hæng. En maður þurfti að beita brögðum til að fá hann til að taka. Ég var með stóra straumflugu og sökkenda og veiddi þannig andstreymis og hann tók á dauðarekinu. Mér fannst þetta mjög skrítið því yfirleitt er maður að fá hann til að taka púpur.“

Þetta hef ég aldrei heyrt um.

Árni Kristinn hlær. „Neyðin kennir naktri konu að spinna.“

Er bleikjan farin að gefa sig á þessum tíma?

„Já en maður þarf að hitta á hana. Hún er á víð og dreif og oft á Stöðvarbreiðunni eða þar fyrir neðan. Veiðin er hins vegar að langstærstum hluta urriði eða sjóbirtingur.“

En hvað með Leirvogsána. Hvernig hefur vorveiðin verið þar?

„Eins og hún getur gefið magnaða veiði þá hefur byrjunin núna verið frekar erfið vegna veðurs og ísreks. En þar er töluvert af sjóbirtingi og oft mjög vænum. Menn hafa verið að setja í flotta birtinga þar þegar hefur gefið þessa fyrstu daga.“ Hann á von hörkuveiði þegar fer að hlýna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert