75 laxar á sex dögum – stærsti 38 pund

Arnór með Kóngalax sem hann veiddi í ánni Kanektok í …
Arnór með Kóngalax sem hann veiddi í ánni Kanektok í Alaska. Þarna þarf að vera með öflugar græjur. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Veiðimaður vikunnar er Arnór Ísfjörð Guðmundsson. Hann titlar sig sem laxveiðimann í símaskránni og er sennilega einn af fáum með það starfsheiti. Raunar hefur hann líka breytt nafni sínu á facebook og þar heitir hann Arnór Laxfjörð Guðmundsson.

Arnór er heltekinn veiðidellu og hefur veitt víðsvegar um heiminn. Við ætlum einmitt að ræða við hann veiði í öðrum löndum. Þegar viðtalið er tekið er hann að hvíla hyl í Staðará á Snæfellsnesi.

Sporðaköst gerðu nokkrar fréttir um Arnór í fyrra og þar vakti sérstaka athygli að hann náði tveimur hundraðköllum í Laxá í Dölum. Hann landaði 102 sentímetra hæng úr Kristnapolli og nokkrum dögum síðar 101 sentímetra hrygnu í Þegjanda.

Hér er hann að sleppa Coho laxi eða Silver salmon. …
Hér er hann að sleppa Coho laxi eða Silver salmon. Sjaldgæft er að fá þá svona snemma sumars. Arnór var mánuði áður en aðaltíminn hefst. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Landaði öllum fimm tegundunum

„Ég hef veitt víða í Bandaríkjunum, í Idaho, Washington og Oregon, og verið þar að elta steelhead, eða sjógenginn regnbogasilung. Ég hef líka farið tvisvar til Vestur-Alaska,“ segir Arnór. Hann hefur valið að fara á besta tíma og segir að í síðustu ferð, sem var fyrir tveimur árum, hafi hann verið svo heppinn að landa öllum fimm tegundum laxa sem kenndir eru við Kyrrahafið.

Hann landaði nokkrum King salmon, eða kóngalaxi. Tegundin gengur líka undir nafninu Chinook. Þetta eru stærstu laxfiskar í heimi enda landaði Arnór þar 38 punda fiski, en tekur fram að ekki sé óalgengt að veiðimenn reki í fimmtíu pundara þegar þessi tegund er á ferðinni.

Þetta er bryggjuaðstaðan í Quinahagak. Arnór var mjög ánægður með …
Þetta er bryggjuaðstaðan í Quinahagak. Arnór var mjög ánægður með mat og leiðsögn. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Hann landaði líka hundlaxi, eða Chum salmon. Það er næststærsta tegund laxfiska sem ber þetta nafn, sem er ekki mjög virðulegt.

Silver salmon, eða Coho salmon, var einnig færður til bókar í ferðinni hjá Arnóri.

Næsta tegund var rauðlax eða Sockeye salmon og loks Pink salmon eða hnúðlax eins og við þekkjum orðið hér á Íslandi.

Þessu til viðbótar landaði hann einnig Dolly varden, sem er bleikjuafbrigði, Grayling og White fish.

Í síðustu ferð landaði Arnór 75 fiskum á sex dögum og missti marga.

Skröltormurinn sem Arnór nánast steig á.
Skröltormurinn sem Arnór nánast steig á. Ljósmynd/Úr safni AÍG

„Það er alveg magnað að eiga við kóngalaxinn. Þeir eru svipaðir sjóbirtingnum okkar. Stuttir og þykkir og algjörar dráttarvélar. Það er ferðast um á bátum þarna og menn settir í land á malareyrum og veitt af þeim. Þegar þú setur í þessa stóru og þeir fara af stað þá kemur fyrir að menn verða að stökkva í bátana til að fylgja þeim. Ég hef í tvígang lent í því og það verða mikil ævintýri úr því.“

Ég var heppinn

Hann segist hafa verið heppinn í síðustu ferð að hafa náð öllum tegundunum. „Ég var þarna 16.-21. júní og það er besti tíminn fyrir kóngalaxinn. Hins vegar gengur Silver salmon einna síðastur um sumarið og það var heppni að ná í einn slíkan. Besti tíminn fyrir hann er fyrri hluti ágústmánaðar. Ég hitti á eitt kvikindi,“ hlær hann.

Eins og gefur að skilja þarf alvörugræjur í þessa fiska. Fimmtán feta tvíhenda fyrir línu ellefu er talinn hentugur búnaður. „Vatnsmagnið er yfir hundrað rúmmetrar og þegar þú ert að setja í tuttugu plús fiska þarftu bara að hafa þetta öflugt. Ég notaði tíu kílóa Maxima-tauma. Það mátti í raun ekki vera sterkara því að stundum var maður að festa í trjádrumbum og drasli í botninum og þú verður að geta slitið án þess að tapa meiru en bara taumnum ef þú lendir í þeirri stöðu. Flugurnar eru stórar túpur með agnhaldslausum einkrækjum. Þetta eru reglur til að vernda kóngalaxinn í Kanektok-ánni þar sem ég hef tvisvar veitt. Ég átti bókaðan þriðja túrinn í fyrra, tvær vikur í Silver salmon, en Covid sá fyrir því.“

Með Hundlax, eða Chum salmon. Heimamenn veiða mikið af honum …
Með Hundlax, eða Chum salmon. Heimamenn veiða mikið af honum og nota sem fóður fyrir sleðahunda yfir veturinn. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Þetta var toppurinn

Arnór er yfir sig hrifinn af ánni, umhverfinu og aðstæðum. „Kanektok rennur meðfram eskimóaþorpi sem heitir Quinahagak og þar búa hátt í átta hundruð manns. Þetta eru algerar óbyggðir og engir vegir og það er þriggja tíma flug frá Anchorage í Alaska.“

Var þetta ekki mögnuð lífsreynsla að fara þarna?

„Þetta var alveg toppurinn. Þarna búa veiðimenn í tjaldbúðum og það er ekkert símasamband, bara netsamband. Við borðuðum venjulegan heimilismat. Það var byrjað snemma að veiða og veitt til klukkan fimm um daginn. Þetta var algerlega magnað. Ég hef veitt í Noregi, Skotlandi og mikið hér á Íslandi en þetta toppaði allt. Maður var allan tímann í hörkuveiði. Maður stóð kannski í hnédjúpu vatni og allt í einu kom kannski rauðlaxaganga og hún gekk bara í gegnum þig. Milli lappanna á þér og báðum megin við. Stundum var verið að draga upp bátana á malareyrina og þá var þar torfa af fiski í skjóli og allt varð vitlaust. Þetta voru svo mikil ævintýri og magnað sjónarspil.“

Hér má sjá hvar Arnór var að veiða. Þetta eru …
Hér má sjá hvar Arnór var að veiða. Þetta eru alvöru óbyggðir. Ljósmynd/kort

Þarna er eins og gefur að skilja mjög villt náttúra. Einu sinni sá Arnór spor eftir björn í barði, en varð aldrei var við þá. Hins vegar var töluvert af úlfum sem þeir sáu og heyrðu í á nóttunni. Urðu stundum varir við skrjáf fyrir utan tjöldin á nóttunni. Einu vopnin sem leiðsögumenn voru með var bjarndýra-mace eða piparúði. Ekki kom til þess að nota þyrfti það.

Steig næstum á skröltorm

„Menn hafa ekki miklar áhyggjur af bjarndýrum þarna. Þessi dýr eru miklu hræddari við okkur. Svo eru þeir að éta nóg og hugsa mest um laxinn og þá eru ekki miklar líkar á árekstrum. En ég lenti einu sinni í skröltormi þegar ég var að veiða í Bandaríkjunum. Maður er náttúrlega bara Íslendingur og veður áfram í gegnum runna og hvað sem er. Maður á víst að sneiða hjá runnum og þess háttar og eitt skiptið þegar ég fór í gegnum runna heyrði ég eftir á eitthvert skrölt og þá var einn þar. Mjög flott skepna.“

Þetta er 30 plús Kóngalax sem okkar maður var að …
Þetta er 30 plús Kóngalax sem okkar maður var að landa. Nýgenginn og ótrúlega kröftug skepna. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Ef þú berð saman alla þessa reynslu þína af veiði í útlöndum og Ísland. Hvar stöndum við í þessum samanburði?

„Ég myndi allan daginn vilja veiða í Alaska. Það sem ég fíla svo við Alaska er að þetta er bara venjulegur heimilismatur og maður er búinn að melta áður en maður fer að sofa. Hér er maður oft að bíða eftir mat langt fram eftir nóttu. Maturinn og leiðsögumaðurinn er ekki uppistaðan í kostnaðinum í Alaska eins og þetta er orðið á Íslandi í dag ef þú ætlar að veiða með leiðsögumanni. Veiðileyfið á Íslandi er orðið ódýrari hlutinn miðað við fæði og leiðsögumann.“

Þessir gæjar vita allt

Arnór er afskaplega hrifinn af leiðsögumönnunum sem vinna á Kanektok-ánni. „Þetta eru allt mjög hraustir og ungir strákar sem hafa menntað sig ótrúlega vel í öllum þessum fræðum og vita í raun allt sem viðkemur stangveiði og aðstæðum á svæðinu. Þeir eru með svo rosalega gráðuga veiðidellu að það er yndislegt. Ég var sjálfur leiðsögumaður og hef stundað það mikið. Þarna sá maður að þessir gæjar hafa þurft að hafa mikið fyrir því að komast inn í leiðsögumennskuna. Það var alveg sama hvað þú barst undir þá. Þeir vissu allt. Hvort sem var línur, flugur, stangir eða hjól eða bara hvað sem var.“

Með nýgenginn Rauðlax, eða Sockeye salmon.
Með nýgenginn Rauðlax, eða Sockeye salmon. Ljósmynd/Úr safni AÍG

Hann nefnir sem dæmi að í eitt skipti þurfti að kasta óvenjulöng köst. Þá reif leiðsögumaðurinn allt út af hjólinu hjá honum og í stað undirlínu setti hann plastlínu sem gerði það að verkum að það bara „fauk út af hjólinu og kastið lengdist um tíu tólf metra“, upplýsti okkar maður.

Það er ljóst að Arnór Laxfjörð Guðmundsson er að fara aftur til Alaska um leið og farsóttin er að baki.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert