Veiðimaður vikunnar að þessu sinni er með veiðidellu á lokastigi. Hún fór þrjá hringi umhverfis Ísland í fyrra, með tjald og veiðistöng. Ein á ferð og notaðist við leitarvélar til að finna veiðistaði og ævintýri.
Hún heitir Helga Kristín Tryggvadóttir og er fulltrúi nýrrar kynslóðar í veiðinni. Átti meðal annars þátt í að stofna FUSS, Félag ungra í skot- og stangveiði. Helga Kristín er fædd og uppalin á Tálknafirði í fjölskyldu sem er rík veiðihefð í. Eins og svo margir veiðimenn byrjaði hún á bryggjunni og á sjóstöng. Foreldrar hennar eru fársjúkir þegar kemur að veiði og fara eins oft og mögulegt er. Helga Kristín naut góðs af því sem barn og veiðibakterían dafnaði.
„Ég átti svo frábært sumar í fyrra. Ég fór þrisvar hringinn og veiddi úti um allt. Vissi svo sem ekki alltaf hvar möguleikar væru á veiði, en þá fór ég bara á kaffihús og spjallaði við heimamenn og fann út hvar væru möguleikar. Ég var með Google Maps og bankaði upp á hjá bændum og fékk leyfi. Ég skipulagði aldrei neitt og endaði bara einhvers staðar. Ég ætla að gera þetta aftur í sumar. Þetta var einfaldlega yndislegt og besta sumar sem ég hef nokkurn tíma átt,“ segir Helga Kristín.
Eitthvað sem stendur sérstaklega upp úr?
„Ég myndi segja Austfirðirnir. Fór á silungasvæðið í Breiðdalsá og veiddi hliðarár Jöklu og það var frábært. Það var líka gaman að fara í Skarðsá á Möðrudal. Ég var þar snemma tímabils og vissi að hún er þekkt fyrir risableikjur. Ég var svo óheppin að lenda í ömurlegu veðri. Hífandi roki og rigningu. Landaði samt ellefu bleikjum en engin í þeirri stærð sem ég var að vonast eftir. Ég endaði á að veiða til klukkan fimm um nóttina. Villi landeigandi leyfði mér að veiða gegn því að ég gæfi skýrslu fyrir klukkan níu um morguninn. Ég rétt náði því. En þetta var yndislegt.“
Hverjir voru með þér í þessum ævintýrum?
„Ég var bara ein og það var frábært. Var með tjald á toppnum á bílnum og naut lífsins í botn.“ Helga Kristín hefur sett saman myndband sem á 85 sekúndum lýsir vel þessari upplifun. Það er hægt að spila hér að neðan.
Þú ert í stjórn FUSS. Hvernig kom til að þau samtök voru stofnuð á sínum tíma?
„Ég heyrði í Þorsteini Stefánssyni í janúar í fyrra eftir að hafa leitað á samfélagsmiðlum að vettvangi fyrir ungt fólk til að tala saman um veiði, án þess að finna nokkuð. Ég hafði samband og spurði hann af hverju það væri ekki til vettvangur fyrir ungt veiðifólk og samtalið endaði þannig að við ákváðum að hittast og ræða stofnun formlegs félags. Við hittumst síðan viku síðar þar sem ég var búin að finna upp nafnið FUSS og hanna logo, það þurfti ekki meir. Þorsteinn hafði svo verið að halda uppi hópi á Facebook fyrir unga veiðimenn og sendum á þá sem voru í hópnum fyrir. Þannig kom þetta eiginlega til að mig vantaði veiðifélaga á mínum aldri,“ hlær Helga Kristín.
Þessu erindi þeirra var vel tekið og í raun mun betur en þau áttu von á. Í febrúar í fyrra var haldið formlegt opnunarkvöld og mættu þar hvorki fleiri né færri en áttatíu manns. Þarna kynntu þau forsendur félagsins og hvað þau vildu sjá gerast. Hún viðurkennir að þessi góða mæting hafi farið fram úr þeirra væntingum.
FUSS er bæði að horfa til skot- og stangveiði. Hins vegar má segja að skotveiðin hafi ofurlítið orðið út undan vegna Covid, þar sem fólk var hvatt til að vera ekki að ferðast milli landshluta þegar rjúpnatíminn hófst. Þau héldu engu að síður einn viðburð á netinu með Skotvís og tókst hann vel. Þar mættu um hundrað og fimmtíu manns, áður en takmarkanir skullu á.
„Við munum styrkja þann þátt síðar í sumar og haust þegar veiðitíminn nálgast.“
En hvað með kynjahlutföllin hjá ykkur?
Helga Kristín byrjar á að hlæja. „Strákarnir eru miklu fleiri en góðu fréttirnar eru þær að það eru alltaf að koma fleiri og fleiri stelpur.
Við erum búin að auglýsa nokkrar veiðiferðir og þær seldust mjög hratt upp, þannig að við ætlum að setja saman fleiri pakka. Við finnum að veiðin er að verða trend hjá yngra fólki og við ætlum að mæta þeirri þörf. Eitt af því sem FUSS mun gera er að skipuleggja útihátíð og það er fullt í pípunum.“
Þið eruð búin að fara fyrstu veiðiferð vorsins?
„Jú, fórum í Hólsá, á austurbakkann, um síðustu helgi. Það var ekki mikið af fiski en við náðum tveimur fiskum. Þar voru þrjár stelpur af tólf manns.“
Fékkstu fisk?
„Já, ég fékk báða fiskana. Mér fannst það mjög fúlt. Það var mjög gaman að fá fyrsta fiskinn, en ég hefði svo innilega viljað að einhver annar hefði fengið hinn. Systir mín var með mér á stöng og það hefði verið frábært að hún hefði fengið hann, enn...“ Helga Kristín hlær nánast vandræðalega.
Er eitthvað sem þú myndir vilja sjá breytast í veiðimenningunni, eins og hún birtist ykkur í dag?
„Já, það er nú ýmislegt. Þetta er mikill karlaheimur og steríótýpan er ríkur karl sem fer í laxveiði. En það er ekkert þannig. Veiði er fyrir alla og mér finnst vanta ákveðna hugarfarsbreytingu. Margir bara ákveða að það sé ógeðslega dýrt að fara að veiða. Ég hef líka tekið eftir að það vantar aðgengi að veiðileyfum. Sérstaklega fyrir byrjendur. Hvert er sniðugt að fara og hvað hentar byrjendum eða er meira krefjandi fyrir lengra komna.“
En er það ekki einmitt ástæðan fyrir því að þú ert að setja upp nýjan veiðisöluvef, salmonzon.is?
„Ég byrjaði á þessu í fyrra. Ég var að vinna í viðburðageiranum og hann varð bara að engu í Covid. Ég horfði bara fram á atvinnuleysi. Ég fór að leita mér að veiðileyfum og ég það var bara ekki auðvelt. Ég endaði alltaf á að skoða marga glugga og senda á endanum tölvupóst eða hringja til að vita hvað var laust og hvaða verð voru í boði. Oftast endaði ég á að gefast upp og hugsaði svo, af hverju er ekki til vefur sem er svipaður og Airbnb í gistingu? Þar sem veiðileyfasalar geta bara sjálfir sett inn verð, lausa daga, myndir og hvað sem þeim dettur í hug. Hugmyndin er að það sé hægt að fletta upp eftir dagsetningu, til dæmis þegar vinahópurinn er laus eða ef fjölskyldan er stödd úti á landi. Ef leitað er eftir leyfum, þá koma þau til þín, ekki endalaust verið að hringja og senda tölvupóst. Við viljum líka flokka leyfin niður. Hvað er hentugt fyrir fjölskyldur, vinahópa, hvataferðir, dagsferðir og ólíkar þarfir. Þetta er verkefni sumarsins að klára þetta og byggja upp vefinn. Ég hef fengið góðar undirtektir og mikinn áhuga.“
Hvar ertu stödd með vefinn, hvenær fer hann í loftið?
„Þetta er mikil forritunarvinna. Við ætluðum að opna í mars, en mér sýnist að við getum opnað hann í þessum mánuði, ef ekkert stórkostlegt kemur upp á. Við ætlum líka að setja þarna inn fréttir og myndbönd og þá ekki bara af miðaldra köllum með stóra laxa. Kannski meira svona fjölskyldutengt. Ég er mjög spennt,“ segir athafnakonan Helga Kristín.
Í dag er hægt að skrá sig á póstlista hjá salmonzon.is og fá tilkynningu þegar vefurinn fer í loftið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |