Fyrstu vorlaxarnir mættir í Skotlandi

Iain McLaren með fyrsta laxinn á Skotlandi. Þessi veiddist í …
Iain McLaren með fyrsta laxinn á Skotlandi. Þessi veiddist í gær og mældist 19 lbs eða 8,6 kíló. Fiskinum var sleppt. Það er ótrúleg staðreynd að þessi lax er ekki að fara að hrygna fyrr en eftir tæpt ár og dvelur í ánni allan þann tíma. Ljósmynd/Atlantic Salmon Fishing

Margir íslenskir veiðimenn horfa nú öfundaraugum til Bretlandseyja, þar sem fyrstu laxarnir hafa veiðst síðustu daga. Þeir eru kallaðir Springers, eða vorlaxar. Sporðaköst greindu frá þeim fyrsta sem veiddist í írskri á, á fimmtudaginn. Fyrstu tveir vorlaxarnir veiddust í gær í skosku ánum, Tummel og Oich.

Það var víða hátíðleiki sem sveif yfir vötnum í Skotlandi í gær þegar veiðimenn tóku fyrstu köst vorsins, eða vetrarins. Sekkjapípuleikur glumdi í svölu loftinu og óþreyjufullir veiðimenn og fjöldi áhorfenda fögnuðu nýju laxveiðitímabili.

En hvernig stendur á því að laxar eru að ganga svona snemma og það í ár sem eru ekki svo ýkja langt frá Íslandi? Sérstaklega er það athyglisvert í ljósi þess að vart verður við fyrstu laxana í íslenskum ám um miðjan maí.

Guðni Guðbergsson sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun svaraði því til að þetta væru að jafnaði laxar sem hafa verið tvo til þrjú ár í sjó. Honum fannst þetta frekar snemmt að þeir væru mættir um miðjan janúar, en benti á að fiskifræðingar hefðu tekið eftir því að göngutími laxa væri að færast fram um hálfan dag að meðaltali síðustu fimmtán árinu.

Fyrsti laxinn veiddist á Írlandi á fimmtudag í ánni Drowes.
Fyrsti laxinn veiddist á Írlandi á fimmtudag í ánni Drowes. Ljósmynd/GB

„Þeir kalla þennan lax Spring salmon (vorlax) og hafa þeir verið tvö eða þrjú ár í sjó. Það er dálítið merkilegt að laxinn sem er að ganga núna kemur ekki til með að hrygna fyrr en í desember. Þá er spurningin af hverju laxinn er ekki lengur í sjó og kemur seinna ársins og þá orðinn stærri og með fleiri hrogn. Líklega er það af því að það er afar ábatasamt að ganga til sjávar til að ná aukinni stærð og auka getu til að koma sínum afkvæmum áfram til næstu kynslóðar (auka fitnes). En það er líka áhættusamt að vera í sjó svo að líklega er best að ganga í ár snemma í stað þess að taka sénsinn á lengri sjávardvöl,“ svaraði Guðni í skriflegu svari til Sporðakasta.

Sjá má á umræðum breskra veiðimanna á facebook að þó svo að fyrstu vorlaxarnir hafi veiðst á opnunardegi, þá hafa margir mjög miklar áhyggjur af stöðu villta laxins og telja veiðina ekkert í líkingu við það sem var fyrir nokkrum árum.

Næstu daga og vikur halda ár áfram að opna á Bretlandseyjum. Ljóst er að þeir fiskar sem eru að veiðast í janúar og febrúar flokkast sem undanfarar en svo bætist í fjöldann þegar líður að vori. En eins og myndin ber með sér eru þetta flottir silfraðir laxar sem hafa verið að veiðast. Vonandi veit þetta á gott með íslenska laxinn á komandi sumri. Það eru ekki nema fjórir mánuðir þar til þeir fyrstu koma heim.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert