Kafarar í tímapressu leita strokulaxa

Kafari í Silungabakka í Víðidalsá. Þeir sáu þar einn eldislax …
Kafari í Silungabakka í Víðidalsá. Þeir sáu þar einn eldislax en það kom á óvart hversu lítið var af strokulaxi í ánni. Samtals sáu þeir fjóra eða fimm laxa og náðu að skutla einn. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Nýtt teymi norskra kafara sem sérhæfa sig í að snorkla eða rekkafa í ám í leit að strokufiski er nú við köfun í laxveiðiám í Húnavatnssýslum. Þeir byrjuðu í gærmorgun með því að kafa í Víðidalsá. Óhætt er að segja að byrjunin hafi ekki lofað góðu. Einn af fjórum köfurum byrjaði á því að kanna skyggni í ánni. Um leið og hann stakk höfðinu ofan í ána blasti við honum eldislax. Viðstaddir tóku þetta sem merki um að áin væri full af strokulaxi.

Svo reyndist ekki vera og var þarna um mikla tilviljun að ræða. Kafararnir fjórir sem mynda teymið hafa mikla reynslu af því að skutla strokufiska og einnig af öðrum verkefnum í ám þar sem köfun nýtist. Þeir hugsa um samtals sjötíu ár í Noregi.

Kafararnir sáu á bilinu fjóra til fimm laxa sem þeir staðfestu að væru eldislaxar. Þeir náðu að skutla einn þeirra og og annar var veiddur á stöng síðar um daginn.

Norska teymið hefur mikla reynslu og eru nú farnir til …
Norska teymið hefur mikla reynslu og eru nú farnir til starfa í Miðfjarðará og fleiri ár bíða en þeir hafa aðeins örfáa daga í verkefnið. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Víðidalsá „hreinni“ en búist var við

Miðað við yfirferð kafaranna má segja að Víðidalsá sé nokkuð „hrein“ þegar kemur að eldislaxi. Kemur það nokkuð á óvart þar sem mun meira hefur sést af þessum fiskum í Vatnsdalsá og Miðfjarðará sem liggja sitt hvoru megin við Víðidalsá. Kann að vera að Hópið sem Víðidalsá rennur í áður en hún nær til sjávar geri þarna gæfumun. Hópið er að hluta til salt og gætir þar sjávarfalla að nokkru leiti. Þegar að eldislaxinn hefur ekki villta íslenska frændur sína til að elta getur verið að hann einfaldlega stöðvist í Hópinu eða leiti annað. Aftur á móti eiga hinar árnar og Blanda, ós sem fellur beint til sjávar. Hvort þetta gerir gæfumuninn er þó ekki hægt að staðfesta.

Kafað í Faxabakka. Þar sáu þeir tvo eða þrjá eldsilaxa. …
Kafað í Faxabakka. Þar sáu þeir tvo eða þrjá eldsilaxa. Ýmsir hafa gert grín að þessari aðferð. Eftir að hafa fylgst með vinnubrögðum norsku kafaranna er ljóst að þetta er áhrifaríkasta aðferðin til að ná strokulöxunum. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Næstu verkefni kafaranna eru Miðfjarðará, Vatnsdalsá, Hrútafjarðará, Laxá í Dölum, Laxá á Ásum og Fnjóská. Afar ólíklegt verður að teljast að þeir nái að kafa í allar þessar ár þar sem þeir hafa aðeins örfáa daga til stefnu. Verkefni heima fyrir kalla.

Eldislaxinn enn að mæta

Áfram veiðast eldislaxar í laxastiganum í Blöndu og voru háfaðir þar fjórir laxar í gær. Samtals hafa náðst þar 53 laxar frá því að laxastiganum var lokað í kjölfar upplýsinga um strokið úr kvíum Arctic Fish.

Þá hafa verið að veiðast eldislaxar í Hrútafjarðará, Miðfjarðará og Vatnsdalsá síðustu daga. Athygli vekur í Miðfjarðará að tveir eldislaxar veiddust í veiðistaðnum Kerlingu í Austurá og hefur fiskurinn þá lagt að baki erfiðar hindranir. 

Afskaplega illa útlítandi eldislax veiddist nýverið í Hrútafjarðá og verður fróðlegt að sjá hvað kafarateymið finnur í þessum ám. 

Árnar þurfa að vera afskaplega tærar svo að köfunin komi …
Árnar þurfa að vera afskaplega tærar svo að köfunin komi að gagni. Slýrek og vatnavextir draga mjög úr möguleikum kafaranna. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Sporðaköst hafa fylgst með köfun í bæði Víðidalsá og þegar fyrra kafarateymið fór í Miðfjarðará. Það er ljóst eftir að hafa fylgst með þessu að örfáir dagar duga ekki í þetta verkefni. Eldislaxinn styggist með allt öðrum hætti en villti laxinn þegar kafararnir nálgast hann. Á meðan að villti laxinn reynir að fela sig og heldur sig í hylnum getur strokulaxinn vaðið á milli hylja og er hann erfiðari viðfangs.

Byssa eða veiðistöng? 

Skutlar norsku kafaranna komu ekki með þeim þegar þeir komu til landsins í fyrradag. Það tafði þá mikið en þar var íslensk stjórnsýsla að láta til sín taka. Í Noregi fellur skutulbyssa eins og þeir norsku vinna með undir sambærilega skilgreiningu og bogi eða jafnvel veiðistöng. Hér á landi eru þessar skutlar hins vegar skilgreindir sem skotvopn og þurfti því sérstaka undanþágu til koma þeim til landsins.

En næstu dagar munu veita miklar og nauðsynlegar upplýsingar um stöðuna í þessum veiðiperlum sem norsku kafararnir eru að fara að vinna í. Þar má búast við stærri tölum en í Víðidal. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert