Þriðja kafarasveitin frá Noregi er mætt

Fossinn Dynjandi er mestur fossa á Vestfjörðum og þykir náttúruperla. …
Fossinn Dynjandi er mestur fossa á Vestfjörðum og þykir náttúruperla. Norskir rekkafarar og þeirra erindi á þessum slóðum eru gríðarleg mótsögn þegar kemur að íslenskri náttúru. Ljósmynd/Fiskistofa

Norskir rekkafarar eru mættir í þriðja sinn til að leita að strokulöxum sem sluppu úr kví Arctic Fish í Patreksfirði í ágúst. Kafararnir, sem eru þrír mættu til landsins á mánudag og var fyrsti viðkomustaður þeirra Hvolsá og Staðarhólsá. Þar fundu þeir ekki eldislax í þessari umferð.

Annað var uppi á tengingunum í gær þegar þeir lögðust til sunds með skutla sína í Botnsá í Tálknafirði. Samtals skutluðu þeir og fjarlægðu 44 eldislaxa úr ánni. Við athugun á þeim fiskum sem náðust kom í ljós að hængarnir voru tilbúnir til æxlunar. Orðnir rennandi eins og það er kallað. Hrygnurnar áttu eitthvað eftir en ljóst er að tíminn er orðinn ansi knappur til að ná þessum fiskum áður en til hrygningar kemur. Eftir hrygningu er sjálfhætt að leita þeirra því markmiðið er að koma í veg fyrir að þeir fjölgi sér. Allur fiskur sem kafararnir ná fer til Hafrannsóknastofnunar til greiningar og staðfestingar á uppruna.

Guðni M. Eiríksson hjá Fiskistofu annast skipulagningu á aðgerðum og sagði hann í samtali við Sporðaköst, ljóst að tíminn væri orðinn naumur. Guðni sagði að kafarateymið væri þegar búið að fara í nokkrar aðrar ár á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeir náðu fjórum eldislöxum í Ósá í Patreksfirði. Aðrar ár sem kafararnir hafa farið í eru áin Dynjandi, Fossá, Vatnsdalsá í Vatnsfirði og Mjólká, þar sem þeir náðu tveimur strokulöxum. Sumar af þessum ám eru mjög stuttar þannig að kafarateymið er fljótt að kanna stöðuna í þeim.

Fæstar af þeim ám sem hér eru taldar flokkast sem hefðbundnar laxveiðiár en þær eru valdar í samráði við Hafrannsóknastofnun að sögn Guðna. Þannig nefnir hann að í Mjólká í fyrrasumar hafi veiðst um fjörutíu laxar og nálægt helmingur þeirra reyndist vera strokulax og var uppruni þeirra rakinn til slysasleppingar sem varð í Hringsdal árið áður, eða 2021.

„Kafararnir munu svo í framhaldinu fara í nokkrar ár á Ströndum og á föstudag er stefnt að því að þeir skoði aðstæður í Fnjóská. Síðasti dagurinn sem þeir verða að þessu sinni fer svo í að skoða ár í Dölunum.“ Guðni segir jafnframt að til athugunar sé að fá fjórða teymið því listinn yfir ár sem óskað hefur verið eftir að fá kafara í sé langur.

Þegar Guðni er spurður um kostnaðinn við þessar aðgerðir segir hann að það liggi ekki endanlega fyrir. Hann segir þó liggja fyrir að kostnaðurinn við þrjár heimsóknir norsku kafaranna sé í kringum tuttugu milljónir króna. Það sé þó ekki endanleg tala og ekki liggur fyrir kostnaður Fiskistofu og annarra sem komið hafa að aðgerðum. „Það er í mörg horn að líta í þessu og við höfum aldrei staðið frammi fyrir svona stóru verkefni á þessu sviði."

Forvitnilegt verður að sjá hvað kemur út úr vinnu kafaranna á næstu dögum en samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi veiðifélaga er nú búið að ná yfir fjögur hundruð strokulöxum úr ám á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Áætlað er að á fjórða þúsund laxar hafi sloppið úr kví Arctic Fish.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert