Nýtt veiðistjórnunarkerfi fyrir rjúpuna

Guðlaugur Þór Þórðarson var gestur aðalfundar SKOTVÍS í gærkvöldi og …
Guðlaugur Þór Þórðarson var gestur aðalfundar SKOTVÍS í gærkvöldi og staðfesti hann að nýtt veiðistjórnunarkerfi, þegar kemur að rjúpnaveiðum, verður tekið upp í ár. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Fyrsti rjúpnaveiðidagurinn í haust verður 25. október. Í júní mun liggja fyrir hversu margir veiðidagar verða í boði á hverju veiðisvæði fyrir sig. Þetta er hluti af þeim breytingum sem nýtt veiðistjórnunarkerfi fyrir rjúpnaveiði skilar og verður tekið upp í ár. Kerfið byggir á Adaptive Harvest Managment aðferðafræðinni og vann erlendur sérfræðingur að gerð kerfisins í samráði við helstu aðila sem koma að stjórn og ráðgjöf varðandi rjúpnaveiði.

Sérfræðingurinn Fred A. Johnson er einn sá fremsti í heiminum í dag þegar kemur að AHM kerfum. Íslenska veiðikortakerfið og sú gagnasöfnun sem átt hefur sér stað í gegnum það og talningar á rjúpum voru Fred mjög að skapi og hrósaði hann þeirri vinnu í hástert.

Kerfið var kynnt í grófum dráttum á aðalfundi Skotveiðifélags Íslands SKOTVÍS í gærkvöldi. Áki Ármann Jónsson formaður félagsins og Arne Sólmundsson kynntu kerfið en þeir hafa lagt í mikla vinnu í aðdraganda þess að svona kerfi yrði tekið upp á Íslandi. Ráðherra veiðimála Guðlaugur Þór Þórðarson var sérstakur gestur fundarins. Á næstu vikum og mánuðum verður farið í kynningarvinnu víða um land við að upplýsa skotveiðimenn og annað áhugafólk um hvernig kerfið er uppbyggt. Það kallast Stjórnar– og verndaráætlun fyrir rjúpu.

Áki Ármann Jónsson formaður SKOTVÍS fór yfir kerfið og þá …
Áki Ármann Jónsson formaður SKOTVÍS fór yfir kerfið og þá vinnu sem lögð hefur verið til grundvallar. Ljóst verður í júní hversu margir veiðidagar verða leyfðir á hverju veiðisvæði. Fyrsti veiðidagur í haust verður 25. oktbóber. Ljósmynd/Eggert Skúlason

AHM kerfið sem mætti þýða sem aðlöguð nýtingastjórnun byggir á tveimur meginþáttum. Annars vegar þær talningar sem framkvæmdar eru reglulega og hins vegar Veiðikortakerfið sem öllum skotveiðimönnum er skylt að taka þátt í og þar með veita nákvæmar upplýsingar um veiði, veiðisvæði og dagafjölda. Þegar vortalningu á rjúpu lýkur eru þær upplýsingar færðar inn í kerfið og í júní mun liggja fyrir hver fjöldi daga verður á hverju svæði í haust. Ákveðið var af nefnd þeirri sem vann að útfærslu á kerfinu að fyrsti föstudagur eftir 20. október er fyrsti veiðidagur og verður veitt í fimm daga í röð og hvílt í tvo, eins og fyrirkomulagið hefur verið.

Ein af þeim ákvörðunum sem nefndin stóð frammi fyrir var að velja landsstjórnun á veiðinni eða fara eftir veiðisvæðum. Síðari kosturinn varð ofan á. Landinu er skipt upp í sex veiðisvæði og er viðbúið að dagafjöldi á þeim verði mismunandi. Þannig gætu til dæmis komið tuttugu dagar í hlut Vesturlands á meðan að reikniformúlan gefur upp 45 daga fyrir Austurland. En ljóst er að reiknaður er út dagafjöldi fyrir hvert svæði fyrir sig, byggt á þeim upplýsingum sem slegnar eru inn í formúluna.

Eftir sem áður er það ráðherra sem ákvarðar veiðidagafjölda en hann gerir það að fenginni tillögu frá þeim stofnunum sem lögin kveða á um. Þær stofnanir eru hins vegar bundnar af nýja kerfinu sem gefur upp stöðuna. Rétt er að hafa í huga að þetta kerfi virkar í báðar í áttir. Verði vart við mikla fækkun á rjúpu fækkar dögum. Sömuleiðis fjölgar dögunum komi í ljós uppsveifla, hvort sem er á einstökum veiðisvæðum eða á landinu í heild sinni.

Mikill styr hefur staðið um rjúpnaveiðar og oft hefur ákvörðun um veiði ekki legið fyrir fyrr en skömmu fyrir veiðitíma. Nú verður breyting á og veiðifólk mun vita stöðuna varðandi haustið í júní.

Guðlaugur Þór var spurður á fundinum hvort hann gæti staðfest að þetta kerfi yrði tekið upp í haust. Hann svaraði; „Já.“

Ein af þeim spurningum sem fundarmenn báru upp var hvað myndi gerast ef fellir yrði að sumri. En á þeim tíma er rjúpnaunginn viðkvæmastur ef gerir hret. Svarið felst í því að slíkur viðkomubrestur kæmi fram í gögnum eftir veiðitíma og rannsóknum á ungahlutfalli. Það gæti því leitt til færri daga á næstu rjúpnavertíð á þeim svæðum þar sem slíkt ástand kæmi upp.

Formúlan fyrir AHM er margreynd víða um heim en með gögnum sem safnað hefur á Íslandi gefur hún afar góða mynd af stöðu stofns og veiða. Vissulega er um að ræða lærdómsferli og verða frekari gögn til að styðja enn frekar við markmiðið sem er sjálfbærar veiðar en um leið nýting í réttu hlutfalli við það sem stofninn þolir hverju sinni á hinum ólíku svæðum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert