Útlit fyrir mun betri laxveiði 2024

Frumgögn benda til þess að laxveiðin á Vesturlandi næsta sumar geti orðið allt að fjörutíu prósent meiri en í fyrra. Laxveiðin geti náð meðaltalsveiði. Það er stórt stökk frá síðustu fimm árum, verði það niðurstaðan. Meðaltalið er í kringum fjórtán þúsund laxar en í sumar var veiðin á Vesturlandi um tíu þúsund laxar, eða nokkuð undir meðallagi. Þetta þýðir um 40% aukningu ef spár ganga eftir og meðaltalsveiði verði staðreynd á næsta ári í Borgarfirði og á Vesturlandi.

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun hefur ásamt samstarfsmönnum sínum fundið út afar sterka fylgni milli sjávarhita á fæðuslóð laxaseiða í júlí og veiði smálaxa á Vesturlandi árið eftir. Nú liggur fyrir samkvæmt fyrstu upplýsingum að sjávarhiti á þessu svæði var hærri í sumar en undanfarin ár.

Sigurður Már er gestur Sporðakastaspjallsins í dag og fer þar yfir þetta spálíkan sem varð til með afar merkum tilraunum og rannsóknum hans og fleiri síðustu ár. Rekja má upphaf þessa til Kiðafellsár árið 2005 þegar hann og samstarfsmenn hans fóru út í tilraun sem margir hristu höfuðið yfir. Þeir græddu síritandi merki í sex hundruð laxaseiði og slepptu þeim til sjávar. Ári síðar endurheimtu þeir fimm laxa með þessum merkjum sem höfðu að geyma ómetanlegar upplýsingar. Ári síðar komu svo tveir laxar til viðbótar. Þetta var í fyrsta skipti sem vísindamönnum í heiminum tókst að kortleggja með þessum hætti ferð laxastofns.

Sigurður viðurkennir að hann hafi sleppt sér af gleði þegar erfiðri bið við ósa Kiðafellsár lauk með því að laxar endurheimtust, ári síðar. Nú er orðið til reiknilíkan sem hefur mjög mikla fylgni og því treystir Sigurður sér til að spá með svo afgerandi hætti. Hann tekur hins vegar skýrt fram að þetta reiknilíkan sé þó ekki óskeikult og undantekningar hafi orðið. Þar nefnir hann sérstaklega til sögunnar sumarið 2019. Þá var sjávarhiti á fæðuslóðinni hár en lítið kom af smálaxi sumarið 2020 þvert á það sem líkanið gefur til kynna. Á móti kemur að smálaxinn sumarið 2020 var mjög fallegur. Skýringin á þessari undantekningu kann þó að liggja í því að sumarið 2019 var eitt mesta þurrkasumar sem sést hefur hér á landi og líkur á því að fáheyrð afföll hafi orðið á gönguseiðum það sumarið.

Sigurður Már Einarsson fer í þessu viðtali yfir spálíkanið og útskýrir tilurð þess og hvernig lesið er í það. Þetta er viðtal sem allt áhugafólk um laxveiði þarf að hlusta á.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert