„Það þarf síðan alls ekki alltaf að vera flókið meðlæti, kartöflusalat og smjörsteiktur aspas pössuðu undurvel með kjötinu og engu þurfti við það að bæta,“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þessa dýrindis máltíð en ég held að við séum öll sammála um að lambakonfekt er eitt það allra besta sem hægt er að gæða sér á. Þessi uppskrift er sérlega fljótleg, einföld og ætti engan að svíkja.
Lambakonfekt og kartöflusalat með byggi
Fyrir 4-6 manns
Kartöflusalat með byggi
- 600 g soðnar, kældar kartöflur
- 160 g bygg, soðið og kælt
- 1 rauðlaukur
- 160 g Philadelphia rjómaostur með graslauk og lauk
- 190 g sýrður rjómi
- 50 g majónes
- 1 msk. sítrónusafi
- Rifinn börkur af ½ sítrónu
- 2 tsk. Tabasco Sriracha sósa
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Skerið kartöflurnar niður í munnstóra bita og setjið í skál ásamt byggi og smátt söxuðum rauðlauk.
- Pískið önnur hráefni saman í aðra skál og smakkið til með salti og pipar.
- Blandið að lokum öllu varlega saman með sleikju.
- Geymið í kæli á meðan kjötið er grillað.
Lambakonfekt
- Um 1 kg lambakonfekt
- Caj P grillolía „Honey“
- Salt og pipar
Aðferð:
- Penslið kjötið með grillolíu og leyfið því að marinerast í að minnsta kosti klukkustund, yfir nótt er líka í lagi.
- Grillið það næst á vel heitu grilli, kryddið með salti og pipar og penslið meiri grillolíu á það áður en það er tilbúið.
- Leyfið kjötinu að hvíla í um 10 mínútur áður en það er borið fram.
Smjörsteiktur aspas
- 1 búnt ferskur aspas
- Um 50 g smjör
- 2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
Aðferð:
- Bræðið smjörið við miðlungs háan hita á pönnu.
- Skerið/brjótið endana af aspasinum og setjið hann á pönnuna.
- Rífið hvítlauksrifin yfir og kryddið eftir smekk, snúið nokkrum sinnum þar til aspasinn fer að mýkjast.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars