Nei, hættu nú alveg María Gomez!

Ljósmynd/María Gomez

Hér erum við með eftirrétt sem formlega sprengir alla skala. Við erum að tala um nokkuð sem við höfum aldrei séð áður - skyr brulee - sem gæti auðvitað verið eitthvað eldgamalt en í okkar bókum er þetta splunkunýtt!

Brulée-ið parar María saman við vinsælasta ísinn á landinu (eða svo gott sem) því ef þið eruð ekki búin að smakka Little moons-ísinn þá eruð þið ekki viðræðuhæf.

Little moons eru litlar ískúlur sem vafðar eru inn í sætt rísmjölsdeig eða það sem kallast Mochi deig, en mochi-deig er mikið notað í japanska eftirrétti og kökur. Ísinn hefur slegið í gegn svo um munar og þá ekki síst meðal ungs fólks sem hámar hann í sig eins og enginn sé morgundagurinn.

Skyr Brulée með Little moon-ískúlum

  • 60 g hvítt súkkulaði 
  • 200 g hreint skyr 
  • 300 ml rjómi 
  • 1 tsk. vanilludropar 
  • 4 eggjarauður
  • 80 g sykur 
  • 3 matarlímsblöð
  • Meiri sykur til að brenna ofan á 

Aðferð

  1. Hitið rjómann upp að suðu og slökkvið þá undir.
  2. Bætið skyri saman við rjómann ásamt vanilludropum og hrærið vel saman 
  3. Bræðið hvíta súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið saman við rjómaskyrblandið og hitið við miðlungshita. 
  4. Þeytið svo saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður loftkennd og ljós. 
  5. Setjið matarlímið í kalt vatn og látið standa í 10 mínútur í vatninu. 
  6. Setjið þeyttar eggjarauðurnar saman við heita rjómaskyrblönduna í pottinum, á meðan matarlímsblöðin liggja í bleyti. Hrærið vel saman með sleikju eða sleif í um 5 mínútur eða þar til þetta þykknar. Hellið svo þykkri blöndunni í skál og látið standa í um 5 mínútur til viðbótar. 
  7. Kreistið næst allt vatn af matarlíminu. Setjið eitt blað út í í einu í blönduna og hrærið vel á milli þar til það bráðnar alveg saman við.
  8. Setjið svo í litlar skálar og kælið upp á borði í eins og 20 mínútur og setjið þá filmu yfir skálarnar. 
  9. Kælið svo í ísskáp í lágmark 6 klst. 
  10. Þegar á að bera réttinn fram sáldrið þá 1-2 tsk af sykri yfir hverja skál. Brennið sykurinn með brennara og látið eins og 1-2 little Moons ískúlur með rifsberjabragði ofan á og njótið. 
  11. Mér finnst gott að hafa bláber og jafnvel jarðarber með. 
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert