Vinsælustu tertur Alberts

Þessi uppskrift kemur frá Diddú sem er bæði díva á …
Þessi uppskrift kemur frá Diddú sem er bæði díva á sviði og við hrærivélina.

Albert deildi á dögunum lista yfir vinsælustu terturnar á blogginu sínu, Albert í eldhúsinu. Þar var meðal annars að finna þessa dásamlegu tertu, en uppskriftin kemur frá einni ástsælustu söngkonu landsins, Diddú.

Það er afar gaman að fara í kaffi- eða matarboð til Sigrúnar Hjálmtýsdóttur söngkonu og fjölskyldu hennar. Diddú bjó lengi á Ítalíu og heillaðist þar, eins og fleiri, af mat Miðjarðarhafsins. „Segðu bara að þetta sé bökuð hráfæðisterta” sagði Diddú spurð um tertuna og hló svo hátt að undir tók í dalnum. Ef það er rétt að hláturinn lengi lífið má gera ráð fyrir að Diddú lifi næstu aldamót.

Guðdómleg heilsuterta

150 g pekanhnetur

150 g valhnetur

100 g furuhnetur

300 g döðlur

300 ml appelsínusafi

3 bananar

100 g kókosmjöl

3 tsk kanill

1 tsk. salt

2 tsk. lyftiduft

3 msk. kókosolía

Setjið hneturnar í blandara og maukið.
Sjóðið döðlurnar niður í appelsínusafanum í nokkrar mínútur og maukið síðan í blandara.
Stappið banana í mauk.
Blandið öllu ofantöldu vel saman í skál.
Bætið þurrefnunum saman við jukkið.
Bræðið kókosolíuna og blandið við allt saman.

Bakið í tveimur 24 cm lausbotna formum klæddum að innan með bökunarpappír.
Skiptið deiginu í tvennt og þrýstið ofan í formin.
Bakið í ca 20 mín við 180 °C.

Krem á milli:

1 lítil dós ananaskurl

1 stór dós kókosmjólk (mjólkinni hellt af svo rjóminn verði bara eftir)

Þeytið rjómann vel, hellið safanum af ananasinum og setjið kurlið saman við rjómann og síðan á milli botnanna.

Ofan á:

200 g af 70% suðusúkkulaði

3 msk. góð olía

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði ásamt olíu til að mýkja.

Smyrjið yfir kökuna og skreytið með berjum að vild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert