Frumleg föstudagspitsa Snorra

Fersk og frumleg föstudagspitsa með marakóksum blæ að hætti Snorra.
Fersk og frumleg föstudagspitsa með marakóksum blæ að hætti Snorra. Snorri Guðmundsson

Snorri er ævintýragjarn í eldhúsinu. Hann deilir reglulega með okkur stórkostlegum uppskriftum en að þessu sinni er það fersk og frumleg föstudagspitsa með marokkóskum blæ. 

„Föstudagspizzan er fastur liður á fjöldamörgum heimilum og það af góðri ástæðu, enda fljótlegur og með eindæmum ljúffengur matur.  Þessi útgáfa af pizzu er í miklu uppáhaldi hjá mér og er alveg kjörin þegar maður vill breyta aðeins til frá klassísku pepperóní pizzunni,“ segir Snorri Guðmundsson á bloggi sínu -  Snorri eldar.

Lambahakkið er hægt að fá td hjá Kjöthöllinni í Skipholtinu, en þá er best að hringja daginn áður og leggja inn pöntun.

- Fyrir 16" pizzu -


1 tilbúið pizzadeig
1 hvítlauksrif

2 matskeiðar ólívuolía
400 grömm lambahakk
1 teskeið reykt paprika
1 teskeið cumin
1 teskeið kanill
1 teskeið salt
60 grömm fetaostur
10 kirsuberjatómatar / skornir í tvennt
100 grömm tómatmauk (tomato paste, ekki puree)
1/2 teskeið þurrkað chili
1/2 lítill rauðlaukur
1 teskeið sítrónusafi
8-10 stilkar af kóríander

  1. Stillið ofninn á 250° og setjið bökunarplötuna inn svo hún verði heit þegar pizzan fer á hana.
  2. Kreistið 1 hvítlauksrif út í 2 matskeiðar af ólívuolíu, hrærið vel saman og hitið 2 til 3 sinnum í 10 sek í örbylgju, þangað til olían ilmar vel af hvítlauk.
  3. Blandið vel saman lambahakkinu, reyktu paprikunni, cumin, kanil, saltinu og tómatmaukinu í skál og setjið til hliðar.
  4. Fletjið pizzadeigið út í sirka 15-16" og færið það varlega yfir á bökunarpappír. 
  5. Notið gaffal til þess að stinga göt í deigið með 1 cm millibili og pennslið það svo með þunnu lagi af hvítlauksolíu.
  6. Dreifið lambahakkinu jafnt yfir deigið, en mér þykir best að nota gaffal til að dreifa úr því. 
  7. Skerið tómatana í tvennt og dreifið yfir ásamt fetaostinum, en forðist að fá mikið af olíu með ostinum á pizzuna. 
  8. Fjarlægið heitu bökunarplötuna úr ofninum og færið pizzuna á bökunarpappírnum varlega á plötuna.
  9. Setjið í neðstu hillu í ofninum og bakið í 15-18 mín, eða þar til kantarnir á pizzunni eru orðnir fallega brúnir. 
  10. Á meðan pizzan bakast, skerið rauðlaukinn í þunna bita og veltið upp úr sítrónusafanum. 
  11. Toppið pizzuna svo með lauknum, kóríander laufum, chilí flögum og tahini sósunni. 

- Hvítlauks tahini sósa -

1 matskeið tahini
1 stórt hvítlauksrif
5 mintulauf / má sleppa
1 teskeið sítrónusafi
100 grömm 10% sýrður rjómi
Salt & pipar eftir smekk

Blandið öllu hráefninu vel saman í matvinnsluvél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert