Indverskur myntu- og kóríander kjúklingaréttur

Indverskur kjúklingaréttur með ferskum kryddum og túrmerikgrjónum.
Indverskur kjúklingaréttur með ferskum kryddum og túrmerikgrjónum. Snorri Guðmundsson

Snorri Guðmundsson matarbloggari datt óvart inn á þessa auðveldu og góðu uppskrift þegar hann var að gera tilraunir með afgangshráefni. Afraksturinn er einfaldur en bragðmikill kjúklingaréttur sem gott er að bera fram með salati og Naan-brauði.

„Ég er ótrúlega hrifinn af indverskum mat og enda mjög oft á því að elda eitthvað með indversku ívafi þegar ég byrja að elda án þess að vera alveg viss hvert máltíðin stefni. 

Þessi réttur varð einmitt til þannig alveg óvart eitt kvöldið í tilraunastarfsemi en þá átti ég svo mikið af myntu og kóríander sem ég þurfti að nýta og þar með var undirstaðan að réttinum komin.“

Mér þykir þessi bestur með hrísgrjónum og svo Naan-brauði til að dýfa í sósuna.

- Fyrir 2-3 -
6 bein- & skinnlaus kjúklingalæri
7 hvítlauksrif
1 msk. garam masala
1/4 tsk. cayenne
1/2 tsk. salt
4 msk. ólívuolía
2 gulir laukar / skornir í tvennt og svo þunnt langsum
3/4 bolli AB mjólk
Myntulauf af 10 stilkum (sirka fullur bolli)
1 bolli kóríander (líka stilkarnir)
3 cm engifer
2 msk. sítrónusafi
1 kanilstöng
2 lárviðarlauf
150 grömm kirsuberjatómatar / skornir í tvennt

  1. Blandið vel saman 4 gróft skornum hvítlauksrifjum, 2 msk. ólívuolíu, garam masala, 1/2 tsk. salti, 1/4 tsk. cayenne og kjúklingnum í skál og setjið til hliðar í 1 klst.

  2. Setjið myntuna, kóríander, engifer, AB mjólk og 3 hvítlauksrif í matvinnsluvél og maukið þar til öllu er vel blandað saman.  Saltið & piprið eftir smekk og setjið til hliðar.

  3. Hitið 2 msk. af ólívuolíu á pönnu á miðlungsháum hita og steikið laukinn þar til hann er byrjaður að brúnast örlítið.

  4. Bætið svo kjúklingalærunum út á pönnuna og steikið þar til þau orðin fallega brún, sirka 4-5 mín.  Snúið lærunum þá við, hrærið í lauknum og steikið lærin í aðrar 4-5 mín þar til fallega brún á hinni hliðinni.

  5. Bætið næst myntu/kóríander blöndunni við út á pönnuna ásamt 2 msk. sítrónusafa, 1 kanilstöng, 2 lárviðarlaufum og kirsuberjatómötunum.  Setjið lok á pönnuna, lækkið hitann og látið malla í 25 mín.

  6. Berið svo fram með hvítlauks Naan-brauði og t.d. þessum turmeric hrísgrjónum.

Snorri Guðmundsson er áhugaljósmyndari með matarlist.
Snorri Guðmundsson er áhugaljósmyndari með matarlist. Snorri Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert