Kínóa-skál með bökuðu grænmeti og hnetusósu

Matarmikið salat með dásamlegri kryddaðri hnetusósu.
Matarmikið salat með dásamlegri kryddaðri hnetusósu. eldhusperlur.com

Hollt og matarmikið kínóa-salat frá Eldhúsperlum.com er tilvalin kvöldverður eða meðlæti. Salatið má svo vel borða kalt daginn eftir eða setja í vefjur.

Fyrir 3-4

3 dl kínóa, skolað
5 dl vatn
1 msk. eða 1 teningur kjúklinga- eða grænmetiskraftur
1 sæt kartafla
1 spergilkálshöfuð
hreinn fetaostur (fetakubbur)
sesamfræ
vorlaukur, smátt saxaður
ólífuolía,
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Himnesk hnetusósa

2 msk. hreint ósætt hnetusmjör
2 msk. tahini (sesamsmjör)
1 msk. sítrónusafi
1 msk. hrísgrjónaedik (líka hægt að nota annað edik)
1 tsk. chillimauk (sambal oelek)
1 hvítlauksrif, hakkað
1 msk. rifið engifer
1/2-1 msk. sojasósa
1 msk. hunang, agavesíróp eða önnur sæta
1-2 msk. ristuð sesamolía
3-4 msk. vatn

Skolið kínóa undir köldu vatni áður en þið sjóðið það. Setjið vatnið í pott ásamt kraftinum og hleypið suðunni upp. Hellið kínóa út í og hrærið aðeins. Lækkið hitann og látið sjóða undir loki við vægan hita í 15 mínútur. Takið þá lokið af og leyfið að sjóða þar til allur vökvinn er horfinn, u.þ.b. 10 mínútur.

Takið þá af hitanum og hrærið í með gaffli.Hitið ofn í 200 gráður. Flysjið og skerið sætu kartöfluna í teninga. Veltið upp úr olíu og kryddið með salti og pipar, setjið í fat og bakið í 15 mínútur. Skerið þá brokkolíið smátt og setjið hjá sætu kartöfluteningunum, kryddið með salti og pipar, aðeins meiri olíu og bakið áfram í 15 mínútur.

Á meðan er upplagt að gera sósuna en þar er allt hráefnið sett í blandara eða matvinnsluvél og unnið vel saman. Smakkið ykkur áfram þar til ykkur finnst sósan góð, t.d. er hægt að hafa hana sterkari og setja vel af chilli og engifer. Allt fer þetta eftir smekk.

Gott er að gera tvöfalda uppskrift af sósunni.Setjið skálina svo saman: Kínóa fer í botninn, svo grænmetið þar ofan á ásamt vel af sósunni góðu og skreytt með sesamfræjum, vorlauk og fetaosti. 
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert