Jennifer Berg heldur áfram að kokka upp stórkostlegar máltíðir. Hér deilir hún með okkur einstaklega girnilegri uppskrift að hægelduðum rifjum sem hún pakkar inn í heimagerðar tortillakökur. Uppskriftin er dálítið púsl en vel þess virði og svo getur verið svo róandi að gefa sér góðan tíma í að elda – að því gefnu að þú hafir tíma og fáir frið til að njóta ferlisins sem eldamennskan er.
Fyrir fjóra
Hægelduð rif:
2 kg af svínarifjum (ef rifin eru mjög kjötmikil dugar minna magn)
1 stór laukur eða 2 litlir, skornir í fleyga
4 marðir hvítlauksgeirar
½ ferskur rauður chili
2 msk. reykt paprikukrydd
1 msk. cumin
1 msk. salt
1 msk. svartur pipar
flaska af léttöli
250 ml af góðri grillsósu
2 msk. nautasoðs-þykkni
1 ½ dl vatn
2 lárviðarlauf
Heimagerðar tortilla-flögur
7 dl hveiti
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. lyftiduft
0,7 dl ólífuolía
2,5 dl volgt vatn
Meðlæti:
sýrður rjómi
avókadó, niðurskorið
vorlaukur, niðurskorinn
ferskt kóríander, saxað niður
ferskt rautt chili í sneiðum eða saxað
lime, skorið í fleyga
Hægelduð rif:
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 175 gráður. Í pott sem getur farið inn í ofninn með lokinu á skulið þið setja chili, hvítlauk og lauk. Hrærið öllu þurrkryddinu saman og nuddið á kjötið. Setjið kjötið ofan á laukinn og chiliið.
2. Hellið vatni, nautasoði og grillsósunni yfir kjötið og bætið við lárviðarlaufunum. Setjið lokið á pottinn, setjið inn í ofn og eldið í 4-6 tíma eða þar til kjötið losnar auðveldlega af beinunum. Meðan á eldun stendur er gott að hella vökvanum nokkrum sinnum yfir kjötið.
3. Takið kjötið úr pottinum eftir 4-6 tíma. Blandið því sem er eftir í pottinum saman og úr verður sósa. Hellið sósunni í skál. Setjið kjötið aftur í pottinn og rífið í sundur með tveimur göfflum. Þið eruð núna komin með rifið svínakjöt eða „pulled pork“.
4. Setjið 1-2 dl af sósunni saman við og blandið saman. Kryddið með salti og svörtum pipar ef þörf er á.
Heimagerðar
tortilla-pönnukökur:
1. Setjið öll þurrefnin í skál og blandið vel saman.
2. Setjið ólífuolíuna og vatnið saman við og blandið vel saman þar til úr verður fallegt deig.
3. Hnoðið deigið í tvær mínútur til að binda glúteinið saman. Það er mikilvægt að pönnukökurnar haldist saman.
4. Eftir að hafa hnoðað deigið í tvær mínútur skaltu skipta því upp í tólf bita.
5. Hnoðið kúlu úr hverjum bita og fletjið lítillega út. Setjið kökurnar í ofnskúffu sem búið er að setja smjörpappír í og strá hveiti yfir. Setjið hreint viskustykki ofan á og látið hvíla í 15-20 mínútur.
6. Takið eina kúlu í einu og fletjið út uns þær eru orðnar þunnar.
7. Hitið pottjárnspönnu upp í miðlungs hita. Ekki setja olíu á pönnuna.
8. Steikið pönnukökurnar, eina í einu, uns það koma brúnir blettir á botninn. Hver kaka ætti að vera í um mínútu á pönnunni.
9. Snúið pönnukökunum við og steikið á hinni hliðinni. Athugið að pönnukökurnar geta fyllst af lofti meðan á steikingu stendur en hafið engar áhyggjur. Loftið fer úr þeim.
10. Setjið pönnukökurnar í zip lock-poka eða plastpoka sem hægt er að loka til að halda inni hitanum og gufunni þannig að þær haldist mjúkar meðan þær eru að kólna.
11. Eldið allar pönnukökurnar með þessum hætti.
Takið tortilla-pönnuköku, setjið sýrðan rjóma á hana, smá af hægeldaða kjötinu og nokkrar avókadó-sneiðar. Skreytið með vorlauk, kóríander, chili og kreistið lime-safa yfir.