Skúffukaka læknisins og Röggu litlu

Ragga bakaði hina fullkomnu skúffuköku undir handleiðslu föður síns.
Ragga bakaði hina fullkomnu skúffuköku undir handleiðslu föður síns. laeknirinnieldhusinu.com

Ragnar Freyr eða Læknirinn í eldhúsinu bakaði skúffuköku með Röggu dóttur sinni. Ragnar lagði upp með að nota uppskrift frá móður sinni sem sló alltaf í gegn í hans æsku. Hann ákvað þó að minnka sykurmagnið þar sem upprunalega uppskriftin inniheldur hátt í hálft kíló af sykri.  „Hér er því tilraun til að minnka strásykurinn og setja eitthvað annað sem gefur sætu, í þetta skipti meira af dökku súkkulaði sem er skömminni skárra en hvítur sykur. Auðvitað má skipta konsúmsúkkulaði út fyrir enn dekkra súkkulaði – en þessi, eins og margar aðrar uppskriftir eru í stöðugri þróun,“ segir Ragnar og mælir með göngutúr, skúffuköku og mjólk á þessum ljúfa sunnudegi.

Kakan varð safarík og ljúffeng. Mikið súkkulaðibragð.
Kakan varð safarík og ljúffeng. Mikið súkkulaðibragð. laeknirinnieldhusinu.com

375 g hveiti
150 g sykur
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. natron
3 msk. kakó
1 1/2 tsk. salt
300 g konsúmsúkkulaði
200 g smjör
3 egg
1 eggjarauða
3,5 dl mjólk

fyrir kremið

80 ml rjómi
100 g konsúmsúkkulaði
1 msk. smjör

Fyrst er að blanda þurrefnunum saman; hveitinu, sykrinum, saltinu, natróni og lyftidufti í skál.

Bætið svo kakóinu saman við.

Bræðið svo smjörið og súkkulaðið saman í potti.

Til að gera kökuna aðeins ríkari notaði ég þrjú egg og eina eggjarauðu til viðbótar.

Röggu Láru tókst að blanda þessu vandræðalítið saman við ásamt mjólkinni og súkkulaðibráðinni.

Hrært vandlega saman og svo sett í smurða ofnskúffu.

Kakan var bökuð í 30 mínútur við 180 gráður.

Kremið var einfalt. Bræddi súkkulaði í rjómanum og blandaði svo smjörinu saman við. Til að kæla það niður hraðar (Ragga var orðin óþreyjufull að smakka) var kremið kælt úti í snjónum.

Ragga Lára var alveg á því frá upphafi að það þyrftu að vera hvít korn á kökunni því þá væri hún best.

Ragga var hæstánægð með afraksturinn.
Ragga var hæstánægð með afraksturinn. laeknirinnieldhusinu.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert