Tortillusúpa með kjúklingi að hætti Rósu

Það má vel flýta fyrir sér með því að kaupa …
Það má vel flýta fyrir sér með því að kaupa eldaðan heilan kjúkling. mbl/Rósa Guðbjartsdóttir

Matgæðingurinn Rósa Guðbjartsdóttir deilir hér uppskrift af dásamlegri mexíkóskri súpu. „Það er alveg tilvalið að bjóða upp á ljúffenga og spennandi súpu í Eurovisiónpartíinu. Hérna er uppskrift að geggjaðri súpu sem er undir mexíkóskum áhrifum, matarmikil súpa sem öllum aldurshópum líkar. Það er hentugt að bjóða upp á súpu á þessu kvöldi þegar fólk kemur saman í stórum sem smáum hópum til að fylgjast með keppninni. Það er jafnvel sniðugt að útbúa súpuna með smá fyrirvara, hita svo upp og bera fram ásamt öllu ljúffenga meðlætinu. Hægt er að prófa sig áfram með meðlæti sem borið er fram í litlum skálum. Hver og einn stráir því sem hann kýs yfir súpudiskinn sinn,“ segir Rósa en uppskriftin er úr bókinni hennar Hollar og heillandi súpur sem kom út fyrir einu og hálfu ári.

Tortillusúpa með kjúklingi 

1 msk. ólífuolía eða smjör
1 rauðlaukur, þunnt sneiddur
2 hvítlauksrif, marin
1 tsk. broddkúmen (cumin)
1 tsk. chillíduft
1 msk. tómatkraftur
1 dós niðursoðnir tómatar, maukaðir
1 rauð paprika, fræhreinsuð og skorin í strimla
1 græn paprika, fræhreinsuð og skorin í strimla
1 lítri kjúklingasoð
1 lítil dós maískorn, ef vill
nokkrir dropar tabascosósa
300-400 g eldaður kjúklingur, niðurrifinn

Meðlæti og skraut

avókadó, skorið í bita
tortillaflögur eða Doritosflögur
ferskt kóríander
rifinn ostur

  1. Mýkið lauk og hvítlauk í ólífuolíu eða smjöri við vægan hita í potti.
  2. Hrærið síðan broddkúmeni og chillídufti saman við og loks tómatpúrru og niðursoðnum tómötum. Látið krauma í stutta stund.
  3. Bætið papriku í pottinn og blandið vel.
  4. Hellið síðan kjúklingasoði saman við og látið suðuna koma upp.
  5. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til paprikan er hæfilega elduð.
  6. Bætið þá nokkrum tabascodropum út í. Farið varlega í þeim efnum og smakkið til.
  7. Setjið kjúklingakjötið út í pottinn og látið hitna í gegn, einnig maískornið ef þið notið það.
  8. Berið fram ásamt meðlæti að smekk.

 

Tortillaflögur

Skerið tortillakökur í strimla. Penslið með ólífuolíu og kryddið að vild, t.d. með paprikudufti. Ristið í nokkrar mínútur undir grillinu í ofninum eða á þurri steikarpönnu.

Rósa Guðbjartsdóttir matgæðingur og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir matgæðingur og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka