Vinsælasta pítsan í boði Evu Laufeyjar

„Einfalt og gott pítsadeig sem hefur reynst mér mjög vel, …
„Einfalt og gott pítsadeig sem hefur reynst mér mjög vel, það tekur enga stund að gera deigið en það þarf smá tíma til að lyfta sér,“ segir Eva Laufey. mbl.is/Eva Laufey

Eva Laufey er sannkölluð keppniskona í eldhúsinu. Hún ber ekkert á borð sem ekki er stórgott en hér er það einföld uppskrift að pítsudeigi og áleggi sem bræðir og græðir hjarta og sál.

„Einfalt og gott pítsadeig sem hefur reynst mér mjög vel, það tekur enga stund að gera deigið en það þarf smá tíma til að lyfta sér. Á meðan deigið er að lyfta sér er gott að nýta tímann til góðra verka, t.d. að útbúa áleggið sem fer ofan á pítsurnar,“ segir Eva Laufey en hún bauð vinkonunum í mat og var með þrjá tegurnir af pítsu en þessi var sú vinsælasta.

mbl.is/Eva Laufey

Pítsadeig

2 1/2 dl volgt vatn
25 g þurrger
2 tsk. hunang
2 msk. ólífuolía
350 – 400 g brauðhveiti frá Kornax

Aðferð: Leysið gerið upp í volgu vatni og það er afar mikilvægt að gerið sé volgt. Bætið hunangi saman við og hrærið vel í. Þegar byrjar að freyða í skálinni er gerið klárt. Blandið olíu og hveitinu saman við í hrærivélaskál.

Þið getið auðvitað hnoðað deigið í höndunum en mér finnst langbest að nota hnoðarann á hrærivélinni, það ferli tekur um það bil 4 – 6 mínútur. Deigið er tilbúið þegar það er orðið að kúlu og klístrast ekki við hrærivélaskálina. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefa sig í klukkustund.

Álegg

1 dós sýrður rjómi
1 villisveppaostur
1 hvítlauksrif
Salt og nýmalaður pipar
200 g sveppir steiktir upp úr smjöri og hvítlauk
Hægeldaðir tómatar
Smátt söxuð steinselja

Aðferð: Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Rífið niður villisveppaostinn og hrærið saman við sýrða rjómann, pressið hvítlauksrifið og blandið saman við. Kryddið til með salti og pipar. Smyrjið ostablöndunni á botninn.

Steikið sveppina upp úr smjöri og pressið eitt hvítlauksrif út í pottinn, þerrið sveppina vel áður en þið setjið þá á pizzuna. Bakið við 220°C í 10 – 12 mínútur! Ofnar eru auðvitað misjafnir og það gæti verið að þið þurfið að baka hana lengur en pizzan er klár þegar hún er gullinbrún. Það er mjög gott að setja hægeldaða tómata og smátt saxaða steinselju yfir pizzuna í lokin.

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er mikill listakokkur.
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er mikill listakokkur. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert