Í bókinni Eldhús grænkerans sem kom út fyrir jól er að finna þessa girnilegu uppskrift sem hentar ákaflega vel í hádegisverð, á veisluborð, í brönsinn eða sem aðalréttur með góðu salati. Það er eitthvað við perur og góðan ost á borð við brie sem gerir alla rétti betri.
Crepes með perum og osti
20-30 stk.
4 dl heilhveiti eða gróft spelt
½ tsk. sjávarsalt
½ tsk. lyftiduft
2 egg
50 g brætt smjör
600 ml mjólk eða jurtamjólk
Setjið þurrefnin saman í skál og bleytið með dálítilli mjólk. Hrærið eggin saman við og þá smjörinu. Bætið mjólk við þar til deigið er orðið þunnt. Smyrjið pönnukökupönnu og bakið pönnukökur eins og ykkur er lagið.
# Ég skelli stundum í þessar pönnukökur og hef helminginn í aðalrétt, með fyllingunni, og hinn helminginn sykra ég og hef í eftirrétt.
3 dl soðin hrísgrjón
100 ml rjómi
1 tsk. karrí
3 msk. vorlaukur eða blaðlaukur, skorinn í bita
½ paprika
handfylli ferskt spínat, gróft saxað
1 pera, skorin í bita
150 g hvítmygluostur, skorinn í bita
1 dl rifinn ostur
Hitið ofninn í 190°C. Blandið öllu saman nema ostinum og setjið á annan helminginn af pönnukökunni, lokið henni og stráið osti yfir. Hitið þar til osturinn er bráðinn. Berið fram með salati og kaldri sósu.
# Þessi réttur er ótrúlega sniðugur þegar mikill afgangur er af hrísgrjónum, byggi, kínóa eða öðrum grjónum. Nota má allt sem hugurinn girnist saman við hrísgrjónin – það sem til er hverju sinni.