Lólý matarbloggari tryllir hér bragðlaukana með brauði með parmaskinku, cheddar-osti og graslauk. Við á Matarvefnum værum ekki hissa þótt einhverjir táruðust við þessa uppskrift.
„Ég sá uppskrift svipaða þessari í sjónvarpinu einu sinni og skrifaði hana niður, var svo að fletta í uppskriftabókinni minni og rakst á hana núna fyrir stuttu. Ákvað að henda í þetta um daginn þegar ég gerði aspassúpuna og váá hvað ég var búin að gleyma hversu gott þetta brauð er svo að það var þá ekki spurning með að deila þessu með ykkur.“
425 gr. hveiti
2 tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
100 gr. rifinn cheddar-ostur
50 gr. rifinn parmesan-ostur
6 sneiðar parmaskinka rifin í litla bita
graslaukur (1 góð lúka skorin í litla bita)
1 tsk. sinnepsduft (má sleppa)
200 ml vatn
smá svartur pipar
Forhitið ofninn í 200°C.
Setjið saman í skál öll þurrefnin en takið til hliðar smá lúku af cheddar-ostinum. Blandið þessu vel saman. Bætið vatninu saman við þangað til þið eruð komin með klístrað deig, stundum þarf aðeins meira vatn, kannski nær 225 ml. Hnoðið deigið vel saman en það gæti tekið nokkrar mínútur.
Takið síðan deigið og myndið kúlu úr því, setjið á ofnplötuna og skerið þrjá skurði þvert ofan á brauðið og dreifið afganginum af ostinum yfir.
Það er mjög gott að taka úðabrúsa og úða vatni inn í ofninn svona eins og 10 sinnum. Setjið svo brauðið inn í ofninn og bakið í 35 mínútur.
Takið það út úr ofninum og gerið heiðarlega tilraun til að láta það kólna aðeins en það er bara aðeins of girnilegt til að bíða enda er það langbest sjóðandi heitt með smjöri þannig að það bráðnar inn í það.