Albert Eiríksson, matgæðingur Matarvefjarins, segir þessa súpu koma skemmtilega á óvart og vera hrikalega góða. „Köld gúrkusúpan er sumarleg með silkimjúkri áferð. Heitið á súpunni hljómar kannski ekkert sérstaklega vel í fyrstu – hvorki freistandi né sexý. Sjálfur var ég með efasemdir þegar hún var nefnd við mig fyrst, en trúið mér: súpan er gríðarlega góð, svalandi og frískandi. Í henni eru fáar hitaeiningar og alveg botnlaus hollusta. Á heitum sumardegi nennir enginn að stússast inni í eldhúsinu við matargerð. Útbúið vel af súpunni því fólk á eftir að borða vel af henni á pallinum á hlýjum sumarkvöldum.“
Köld gúrkusúpa
50 g smjör
1 lítill laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 gúrkur, án skinns og kjarna – skorin í bita
1 ½ b kjúklingasoð
cayenne á hnífsoddi
3 msk. sítrónusafi
1 avókadó
2 msk. mynta, söxuð
¼ búnt steinselja, söxuð
½ - 1 b grísk jógúrt
Steikið lauk í smjöri í 5 mín. og bætið hvítlauk út í og steikið áfram þar til hann byrjar að taka lit. Bætið gúrku á pönnuna og látið malla í 5 mín. Hellið soði yfir ásamt cayenne og sjóðið í 6-8 mín. Saltið og piprið.
Setjið í matvinnsluvél og bætið í sítrónusafa, myntu og steinselju og maukið. Bætið síðast avókadó í og maukið áfram. Kælið.
Þeytið jógúrtina saman við áður en súpan er borin fram. Skreytið með smáskornum gúrkubitum með hýði, olíuslettum og myntulaufum. Berið fram með góðu snittubrauði.