„Það eiga allir nokkrar uppskriftir sem þeir elska og gera aftur og aftur. Þessi uppskrift er mín uppáhalds og er gerð oft á mínu heimili, jafnvel nokkrum sinnum í mánuði og stundum tvöfalda ég uppskriftina og geri aukaskammt til að frysta,“ segir Linda Björk Ingimarsdóttir, matgæðingur Matarvefjarins.
„Í þessari uppskrift er svínahakk og verð ég að viðurkenna að í byrjun keypti ég það bara til að spara en varð þvílíkt ánægð með hvernig þær komu út og fannst þær eiginlega betri en með öðru hakki. Það sem ég elska við þessa uppskrift er að hún gengur bæði sem hversdagsmatur en einnig í matarboð, ungir sem aldnir hreinlega elska þessa uppskrift.“
500 g svínahakk
1 egg
Hálfur poki rifinn mozzarella
3 matskeiðar brauðrasp, helst panko
1 matskeið þurrkuð steinselja
1 matskeið þurrkuð oregano
1 matskeið þurrkað basil
1 tsk. chili-flögur, má setja meira ef menn eru heitir
Salt og pipar eftir smekk
1 poki spaghetti (ég nota lífrænt frá Mr. Organic)
Allt hrært saman og mótað í bollur og setjið á smjörpappír. Bollurnar eru svo snævi þaktar parmesan-osti (hér á ekki að spara ostinn) og bakaðar við 200 gráður í 30 mín. eða þar til bollurnar eru orðnar fallega gylltar. Það er fátt betra en að skafa svo bráðinn parmesanostinn af bökunarpappírnum og borða með bollunum.
Fljótleg sósa
1 dós cherry-tómatar
1 dós saxaðir niðursoðnir tómatar
1 krukka basilikupastasósa frá Mr. Organic
2 msk. tómatpúrra
1 msk. þurrkað basil eða tvær msk. af fersku basil
1 msk. þurrkað oregano
1 msk. þurrkuð steinselja
Salt og pipar eftir smekk
Fyrir þá sem vilja smá hita er gott að setja ½ tsk. af chili-flögum í sósuna. Setjið allt í pott og látið malla við vægan hita á meðan bollurnar eru í ofninum.
Sjóðið svo spagetti samkvæmt leiðbeiningum.
Berið fram með salati, góðu brauði en ekki gleyma að setja enn meira af parmesan yfir rétt áður en borða á dásemdina.