Gómsætur ofnbakaður fiskréttur

Ljósmynd: Linda Ben

Það er fátt meira viðeigandi í dag en gómsætur fiskréttur. Það er Linda Ben sem á heiðurinn af honum en hún segir innblásturinn kominn frá Jamie Oliver en hún hafi svo lagað hann til eftir sínum þörfum. 

Girnilegur er hann og við mælum að sjálfsögðu með að þið prófið hann. 

Hægt er að fylgjast með Lindu á Instagram

Gómsætur ofnbakaður fiskréttur

  • 2 litlar sætar kartöflur og 2 stórar venjulegar kartöflur
  • 1 búnt vorlaukur (u.þ.b. 5-7 stk)
  • 3 gulrætur
  • salt og pipar
  • ½ tsk hvítlaukskrydd
  • ½ tsk paprikukrydd
  • 2 msk hveiti
  • 300 ml rjómi
  • 300 ml mjólk
  • 400 g frosnar grænar baunir
  • 200-400 g spínat (fer eftir hvort það sé notað frosið eða ferskt)
  • 600 g þorskur (eða hvaða fiskur sem þig langar í)
  • 1 krukka fetaostur (svolítið af olíunni með)

Aðferð:

  1. Sjóðið vatn í frekar stórum potti, saltið örlítið, skrælið kartöflurnar og skerið þær í u.þ.b. 6 hluta hver, setjið kartöflurnar í pottinn og sjóðið þær.
  2. Kveikið á ofninum 180°C.
  3. Skerið vorlaukinn og gulræturnar niður í litla bita, steikið í pönnu með svolítið af olíu, bætið kryddum út á og blandið vel saman.
  4. Bætið hveitinu út á pönnuna og hrærið vel saman við. Setjið 300 ml af mjólk á pönnuna í litlum skömmtum og hrærið mjög vel á milli svo sósan verði ekki kekkjótt. Bætið svo rjómanum saman við og sjóðið saman.
  5. Setjið sósuna í stórt eldfast mót, bætið saman við grænu baununum og spínatinu.
  6. Skerið fiskinn í bitastóra bita og dreifið í formið ásamt fetaostinum.
  7. Hellið vatninu af kartöflunum og stappið þær. Dreifið þeim yfir réttinn, ekki slétta úr kartöflunum heldur leyfið þeim að vera frekar ójöfnum, það er gert til þess að kartöflurnar verði svolítið stökkar.
  8. Bakið í ofninum í 40 mín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert