Ný bók og lambabógur að hætti Nönnu

Haustlegur og huggulegur lambaréttur.
Haustlegur og huggulegur lambaréttur. mbl.is/Nanna Rögnvaldar

Nanna Rögnvaldardóttir er flestum matgæðingum kunnug enda ötulasta matreiðslubókamaskína sem um getur hérlendis. Ný bók eftir Nönnu, Pottur, panna og Nanna, kemur út í dag en þar er gott og girnilegt safn uppskrifta sem elda má í steypujárnspottum og pönnum auk þess sem Nanna gerir vel grein fyrir umhirðu og mismunandi tegundum steypujárns.

Hér að neðan gefur svo á að líta eina af uppskriftunum úr bókinni.

Lambabógur með kjúklingabaunum Fyrir 4

Sífellt fleiri kunna að meta lambabóg, enda er kjötið af honum bragðmeira en af lærinu og hæg og rök eldun í steypujárnspotti hentar einstaklega vel fyrir það. Þegar ég steiki bóginn heilan finnst mér þægilegast að úrbeina hann að hluta, þ.e. fjarlægja herðablaðið, þá verður bógurinn meðfærilegri og auðveldara að skera hann, og raunar getur þurft að gera það til að koma honum í pottinn nema hann sé þeim mun stærri.

lambabógur, 1,2–1,5 kg

1 tsk. kummin

¾ tsk. kanill

¾ tsk. engiferduft

1 tsk. paprikuduft

¾ tsk. túrmerik

½ tsk. nýmalaður svartur pipar

1 tsk. salt

1 tsk. olía

2 laukar

6 hvítlauksgeirar

300 g gulrætur

1 dós kjúklingabaunir

100 g spínat

Láttu bóginn þiðna alveg í ísskáp í nokkra daga ef hann er frosinn og taktu hann helst úr kæli um 1 klst. áður en á að elda hann.

Hitaðu ofninn í 220°C. Blandaðu öllu kryddinu saman í skál og kryddaðu svo bóginn vel á öllum hliðum með blöndunni. Taktu járnpott, stóran eða aflangan, og penslaðu botninn með olíu. Skerðu laukinn í sneiðar og saxaðu hvítlaukinn og dreifðu á botninn. Leggðu lærið ofan á og settu pottinn í ofninn, án loks, í 15–20 mínútur. Flysjaðu eða skafðu gulræturnar og skerðu þær í sneiðar. Taktu pottinn úr ofninum og lækkaðu hitann í 150°C, dreifðu gulrótunum í kringum bóginn, settu lok á pottinn og settu hann aftur í ofninn í um 2½ klst.

Taktu pottinn þá út og lyftu bógnum gætilega upp og settu á disk. Helltu leginum af kjúklingabaununum og settu þær í pottinn ásamt spínatinu. Leggðu bóginn aftur ofan á og settu í ofninn, án loks, í um 10 mínútur. Berðu fram í pottinum ásamt grænmetinu og hafðu t.d. kúskús með – eða þá kartöflustöppu eða steiktar eða bakaðar kartöflur.

mbl.is/Nanna Rögnvaldar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert