Upphaflega er þessi súpa frá Dröfn Vilhjálmsdóttur, matarbloggara á Eldhúsperlum, en móðir mín hefur breytt henni nokkuð og stækkað uppskriftina enda er súpan bara betri daginn eftir en því miður er sjaldnast afgangur þegar stórfjölskyldan mætir í mat.
Guðdómleg gúllassúpa
1,2 kíló smátt skorið nautagúllas
2 msk. smjör
5-6 laukar, skornir í tvennt og svo í sneiðar
1½ rautt chilialdin saxað (ath. því minna sem aldinið er, því sterkara er það)
3 tsk. paprikuduft
3 tsk. timían
4 tsk. kummín
3 krukkur tómatpassata
6 msk. tómatpúrra
3 msk. hunang
2½ l vatn
5-6 teningar nautakraftur
3 vænar bökunarkartöflur, skornar í teninga
1½ sæt kartafla, skorin í teninga
4 dl rjómi
salt og pipar eftir smekk
jafnvel ögn af chilipipar (þurrkuðum)
Til að toppa með:
Fersk steinselja
sýrður rjómi
Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar. Hitið stóran pott (steypujárn er snilld) við fremur háan hita og bræðið smjörið. Brúnið
kjötið án þess að gegnsteikja það og setjið svo til hliðar.
Lækkið hitann og steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist og breyti um lit. Bætið kjötinu aftur út í ásamt chili og kryddi og steikið aðeins áfram.
Setjið tómatpúrruna saman við ásamt krafti, tómötum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í. Látið súpuna sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar.
Það er best að stappa kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að hún þykki súpuna þótt einhverjir bitar verði eftir. Látið súpuna malla við vægan hita undir loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra. Berið fram með sýrðum rjóma og steinselju.