Geggjað bleikjutaco með mangó-chilisalasa

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Fiskur er eitt það besta sem hægt er að leggja sér til munns og hér gefur að líta útfærslu sem er afar snjöll og ljúffeng. Læknirinn í eldhúsinu fer hér á kostum og sameinar það besta úr íslenskri náttúru og mexíkóskri matargerð.

Svo er þetta auðvitað bráðhollt eins og við er að búast og afskaplega spennandi eins og við var að búast þegar Ragnar Freyr er annars vegar.

Látið kryddblönduna liggja á bleikjunni.
Látið kryddblönduna liggja á bleikjunni. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Ljúffengt bleikjutacos með mangó-chilisalsa, snöggpækluðum gulrótum og ferskum kóríander

Kryddið sem ég notaði á fiskinn er kryddblanda sem við erum að þróa saman, við Ólöf og Omry, hjá Krydd og Tehúsinu. Það er einkar ljúffengt á bragðið og ég hlakka til að kynna það nánar fyrir ykkur.

Fyrir fjóra

800 g fjallableikja
2 msk hvítlauksolía
2-3 tsk kryddblanda að eigin vali
safi úr einni sítrónu
salt og pipar

1 mangó
1 rauður chili
1 rauðlaukur
2 tsk steinselja/mynta
2 msk jómfrúarolía
1 tsk rauðvínsedik
salt og pipar

2 gulrætur
2 msk rauðvínsedik
salt og pipar

Blandað grænmeti
handfylli kóríander

Aðferð:

Penslið fjallableikjuna með hvítlauksolíu.

Dreifið svo kryddinu yfir og penslið flökin vandlega. Saltið og piprið.

Kreistið sítrónuna yfir bleikjuna.

Það er leikur einn að útbúa gulræturnar. Flysjið þær einfaldlega í skál og hellið edikinu yfir, saltið og piprið og látið liggja í 30 mínútur. 

Skerið mangóið í smá bita, ásamt rauðlauknum, chilipiparnum og blandið saman. Setjið næst olíuna,  edikið og kryddjurtirnar saman við. Saltið og piprið. Það er gott að láta salsað standa í þrjú korter til að allt bragðið nái að knúsast.

Steikið bleikjuna í olíu/smjöri þangað til að hún er steikt í gegn.

Svo er bara að raða matnum upp - hita burrito-köku í ofni eða á pönnu, smá salsa, handfylli af blönduðu grænmeti, vænn biti af heitri og ilmandi góðri bleikju, nóg af mangó-chilisalsa, gulrætur og nóg af fersku kóríander. 
Verði ykkur að góðu!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka