Ódýr afgangasúpa sem heimilisfólkið elskar

Holl og vítamínrík súpa sem hentar vel í nesti eða …
Holl og vítamínrík súpa sem hentar vel í nesti eða frystinn. mbl.is/TM

Mamma mín og pabbi fóru til útlanda um daginn og ég fékk senda alla matarafganga úr ísskápnum. Þar var meðal annars að finna nokkrar kartöflur, hálfa rófu, smá sellerírót, grænkál og vænan stilk af spergilkáli. Þetta var allt farið að fölna og því skellti ég í sérlega góða afgangasúpu sem heimilisfólkið gerði fantagóð skil.

Restin af súpunni fór svo í box í frystinn en ég notaði box sem má svo setja beint inn í ofn á 100 gráðu hita og þíða þannig súpuna hægt og hita beint – allt í sama boxinu.

Hér má vel nota meira eða minna af grænmetinu sem upp er gefið.

6 litlar kartöflur með hýðinu 
120 g rófa 
80 g sellerírót 
250 g spergilkál 
100 g grænkál, ekki stilkurinn
1,5 lítrar vatn 
1 msk. grænmetiskraftur 
2 dl rjómi eða kókosrjómi 
1 msk. smjör 
1/3 tsk. svartur pipar, nýmalaður 
1/3 tsk. salt 
Sólblómafræ til að toppa með (má sleppa)

Setjið allt grænmetið í pott (nema grænkálið) og sjóðið uns það er orðið mjúkt. Þá fer grænkálið (saxað) saman við. Setjið þá kraftinn, rjóma og smjör saman við og maukið með töfrasprota. Kryddið svo með salti og pipar. Látið malla á miðlungshita í 10 mínútur og berið svo fram með ristuðu súrdeigsbrauði.

Nesti fyrir hádegið og restin í frysti.
Nesti fyrir hádegið og restin í frysti. mbl.is/TM
mbl.is/TM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert