Hrekkjavöku ostakaka að hætti Berglindar

Kakan er lystilega skreytt eins og Berglindar er von og …
Kakan er lystilega skreytt eins og Berglindar er von og vísa. mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

Hrekkjavakan er á morgun og því ekki seinna vænna en að skella í eina dásemdarköku til að fagna deginum. Þessi kaka er úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is og það er sjálfgefið að hún er bæði bragðgóð og fögur.

Kakan hentar að sjálfsögðu við hvaða tilefni sem er og í raun þarf ekki að vera neitt tilefni ef út í það er farið.

Hrekkjavöku ostakaka

Botn

  • 308 g mulið Oreo (2x 154 g pakki)
  • 120 g smjör
  • ½ tsk. salt
  • 1 tsk. vanillusykur

Ostakakan sjálf

  • 500 g rjómaostur (við stofuhita)
  • 90 g sykur
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 4 gelatínblöð
  • 60 ml sjóðandi vatn (til að leysa upp gelatínið)
  • 400 ml þeyttur rjómi
  • 3 x Mars súkkulaðistykki, skorin í smáa bita

Súkkulaði ganaché

  • 40 g suðusúkkulaði (smátt saxað)
  • 2 msk. rjómi

Aðferð

  1. Byrjið á botninum. Blandið saman muldu Oreo, salti, vanillusykri og bræddu smjöri. Klæðið botn (og hliðar ef vill) á 20-22 cm springformi með bökunarpappír og þjappið blöndunni á botninn og aðeins upp hliðarnar. Hafið í kæli á meðan kakan sjálf er útbúin.
  2. Leggið gelatínblöð í kalt vatn, bíðið í um 10 mínútur, kreistið þá vatnið úr og setjið í sjóðandi vatn (60 ml). Hrærið vel saman og tryggið að blandan sé uppleyst og leyfið því næst að ná stofuhita.
  3. Þeytið rjómann og geymið.
  4. Þeytið því næst saman rjómaost, sykur og vanillusykur þar til létt og ljóst.
  5. Hellið gelatínblöndunni saman við rjómaostablönduna þegar hún hefur kólnað niður og vefjið síðan rjómanum saman við með sleikju.
  6. Útbúið ganaché: hitið rjómann að suðu og hellið yfir smátt saxað súkkulaðið, leyfið að standa í 2 mínútur og hrærið svo saman. Leyfið að kólna aðeins þar til það fer að þykkna og setjið þá í sprautupoka/klippið lítið gat á zip lock-poka til að sprauta köngulóarvefinn á þegar búið er að setja kökuna saman.
  7. Skiptið ostakökublöndunni í tvo hluta og hrærið Mars-bitunum saman við annan hlutann.
  8. Hellið fyrst hlutanum með Mars bitunum á botninn og því næst hvíta hlutanum og sléttið vel úr í forminu.

Sprautið ganaché á miðjuna og svo í hringi með um það bil 1,5 cm á milli. Dragið þá prjón í gegn frá miðjunni og myndið þannig köngulóarvef.
Kælið í að minnsta kosti 4 klst. eða yfir nótt og losið þá úr forminu og færið yfir á disk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert